Merritt vann sinn fyrsta PGA titil

Troy Merritt slær inn á flöt í Virginíu í gær.
Troy Merritt slær inn á flöt í Virginíu í gær. Ljósmynd / Reuters

Bandaríkjamaðurinn Troy Merritt vann í gær sinn fyrsta PGA titil þegar hann sigraði á Quicken Loans National mótinu sem haldið var Robert Trent Jones golfklúbbnum in Gainesville í Virginiu um helgina. Merrit sigraði með þriggja högga forystu á Rickie Fowler sem varð í öðru sæti.

Merritt sem er 29 ára gamall var í 180. sæti á heimslistanum fyrir mótið um helgina. Merritt tryggði sér sigurinn með tveimur fuglum á 16. og 18. holu vallarins. Það var hins vegar frábær hringur Merritt á laugardaginn þar sem hann setti persónulegt met þegar hann fór völlinn á 61 höggi sem lagði grunninn að sigrinum.

Þetta er 96. PGA mótið sem Merritt tekur þátt í og í síðustu fimm mótum hafði Merritt ekki komist í gegnum niðurskurðinn.

„Þetta hefur verið langt ferli síðastliðin fimm til sex ár. Ég hélt að það myndi aldrei til þess koma að ég ynni stórmót ef ég á að vera hreinskilinn. Það eru stórkostlegir golfarar á þessum mótum og ég er umkringdur bestu golfurum heims. Þú verður því að vera með góða leikáætlun og fylgja henni eftir. Síðan verður að setja niður púttin, treysta á lukkuna og vona að öðrum keppendum verði á í messunni.“ sagði Troy Merritt í viðtali við Reuters eftir sigurinn í gær.

Tiger Woods átti eitt af sínum bestu mótum á þessu tímabili, en hann endaði jafn í 18. sæti á átta höggum undir pari og Tiger fór þrjá af fjórum hringjum á undir sjötíu höggum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert