Tiger Woods annar fyrir lokahringinn

Tiger Woods er farinn að brosa á ný.
Tiger Woods er farinn að brosa á ný.

Tiger Woods er í öðru sæti fyrir lokahringinn á Wyndham meistaramótinu sem fram fer í Norður-Karólínu í dag. Tiger á því góða möguleika á að komast í FedExCup úrslitakeppnina sem hefst í næstu viku.

Tiger þarf sigur í Wyndham mótinu til þess að gulltryggja sæti sitt í FedExCup úrslitakeppninni, en hugsanlega dugar honum að vera einn í öðru sæti mótsins, ef önnur úrslit verða honum hagstæð á Wyndham mótinu í Norður Karólínu.

Tiger spilaði á 68 höggum eða tveimur undir pari vallarins í gær og er jafn í öðru sæti ásamt þeim Jonas Blixt og Scott Brown.

„Ég þarf að gera vel lokahringinn og ná mér í nokkra fugla,“ sagði Tiger Woods við bandaríska fjölmiðla í gær.

„Það eru nokkrir á -13 og enn fleiri á 10. 11. og 12 undir pari. Allir geta gert atlögu að sigri og skorað það sama og Jason and Jonas gerðu. Ég spilaði mjög stöðugt golf allt frá byrjun,“ sagði Tiger Woods enn fremur.

Jason Gore er efstur fyrir lokahringinn með tveggja högga forskot, en hann spilaði besta hring sinn á PGA mótaröðinni til þessa í gær. Gore lék þá á 62 höggum eða átta höggum undir pari vallarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert