Fótboltinn settur á bannlista

Rory McIlroy ásamt kærustu sinni Ericu Stoll.
Rory McIlroy ásamt kærustu sinni Ericu Stoll. AFP

Norður-írska stórstjarnan Rory McIlroy segist ætla að læra af mistökum sínum á árinu en hann fótbrotnaði á miðju tímabili í golfinu þegar hann var að leika sér í fótbolta með félögum sínum. McIlroy segir of mikið vera í húfi hjá sér til að hann geti leyft sér slíkt.

McIlroy var langefsti kylfingur heimslistans fyrir ári síðan. Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth vann hins vegar tvö fyrstu risamót ársins og síðari hluta ársins fór Ástralinn Jason Day á kostum. Útlit er nú fyrir að þessir þrír muni berjast um efsta sæti heimslistans á næstu árum enda allir fremur ungir að árum.

„Þetta er sá tími þar sem ég á að ná sem mestu út úr mínum ferli. Næstu 10 - 15 ár ættu að vera mín bestu ár á golfvellinum. Ég get í rauninni ekki leyft mér að gera kjánalega hluti eins og að leika mér í fótbolta á miðju keppnistímabili og eiga á hættu að missa kannski úr sex mánuði. Það er dýrt spaug þegar í boði eru einn eða tveir risatitlar. Ég mun ekki aftur gera slík mistök á næsta ári,“ sagði McIlroy í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert