Vill afsögn forseta Golfsambandsins

Margeir Vilhjálmsson.
Margeir Vilhjálmsson. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur, Margeir Vilhjálmsson, ritar pistil á vefsíðuna Kylfingur.is í dag þar sem hann gagnrýnir Hauk Örn Birgisson, forseta Golfsambands Íslands, harðlega vegna viðtals við hann í Fréttablaðinu í vikunni þar sem Haukur sagði meðal annars að mögulegt væri að reka golfíþróttina hér á landi án styrkja frá hinu opinbera.

Þessu er Margeir ósammála og segir viðtalið mega að hans mati túlka sem opinbert uppsagnarbréf þó varla verði af því að Haukur láti af embætti. Golfklúbbar landsins verði að lifa með því að hafa kosið hann forseta. Margeir segir golfklúbba berjast í dag við fækkun félagsmanna og samkeppni frá öðrum íþróttum og ýmis konar afþreyingu.

„Þróunin á síðustu 15 árum hefur verið mjög jákvæð, en þróunin á síðustu þremur árum er frekar neikvæð. Rekstrarvandi er fyrirsjáanlegur hjá mörgum golfklúbbum landsins verði ekki breyting á. Sá rekstrarvandi verður ekki leystur nema með aðkomu opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaganna,“ segir Margeir. Sjálfoðaliðar skipti sköpum fyrir starfsemina.

„Golf er næst fjölmennasta íþróttagrein landsins og þar halda félagsmenn golfklúbbanna uppi rekstri mannvirkjanna að lang mestu leyti. Rekstrarstyrkir sveitarfélaganna eru fátæklegir og þar má gjarnan bæta í en vonlaust væri að halda úti rekstri margra golfklúbba án þeirra,“ segir hann ennfremur. Sum sveitarfélög hafi þó styrkt mannvirkjagerð myndarlega.

Sú staðreynd að æðsti maður golfhreyfingarinnar á Íslandi hafi hvorki betri sýn, skynbragð né skilning á íþróttinni en raun ber vitni í téðu viðtali er í besta falli sorgleg. Þetta viðtal ætti að mínu mati ekki að túlka sem neitt annað en opinbert uppsagnarbréf, en svo verður nú líkast til ekki.

mbl.is