Óvenjulegur sigur Snedekers

Snedeker á blaðamannafundi í Kaliforníu í dag.
Snedeker á blaðamannafundi í Kaliforníu í dag. AFP

Bandaríkjamaðurinn Brandt Snedeker sigraði í annað sinn á ferlinum á Farmers Insurance Open mótinu á PGA-mótaröðinni í golfi í dag. Mótinu var frestað í gær vegna veðurs og lauk í dag. 

Snedeker fór snemma út í gær og tókst þá að ljúka leik áður en lokahringnum var frestað. Þegar mótinu lauk í dag fylgdist hann því með frá hliðarlínunni en engum keppinauta hans tókst að slá honum við. Snedeker lauk leik á samtals 6 höggum undir pari og K.J. Choi kom næstur á 5 undir pari. 

Snedeker var fimm höggum á eftir efstu mönnum fyrir lokadaginn. Torrey Pines-völlurinn í Kaliforníu var nokkuð erfiður viðureignar en var sérlega erfiður á fjórða hringnum í gær þegar vindurinn fór hratt yfir ásamt rigningu.  Þá tókst hins vegar Snedeker að leika á þremur undir pari og stóð sig miklu betur en aðrir kylfingar á vellinum sem byrjuðu að tapa höggum. Þá virtist Snedeker eiga sigurinn í mótinu vísan því efstu kylfingarnir áttu síðustu 9 holurnar eftir og fátt sem bendi til þess að þeir kæmust frá þeim á parinu.

Þeir luku hins vegar ekki leik og þá var staðan fyrir daginn í dag á þann veg að Snedeker var jafn KJ Choi og höggi á eftir Jimmy Walker. Þeim tókst hins vegar ekki að næla í sigur í dag og skor Snedekers dugði honum til sigurs. Hann fagnaði því sigri fyrir framan fáa áhorfendur á mánudegi og án þess að slá högg á lokadegi mótsins. Fékk Snedeker rúma 1,1 milljón dollara fyrir sigurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert