Segir fregnir af Tiger rangar

Tiger Woods
Tiger Woods AFP

Umboðsmaður Tigers Woods, fyrrverandi besta kylfings heims, segir ekkert hæft í fréttum frá því fyrr í kvöld um að Tiger sé í það slæmu ástandi að ekki sé fyrirsjáanlegt að hann snúi aftur á golfvöllinn í bráð.

Tiger hefur ekki spilað síðan í september en hann fór þá í uppskurð á baki í þriðja skipti á ferlinum. Haft var eftir honum í desember að hann hefði ekkert til að hlakka til í endurhæfingunni og kylfingurinn viðurkenndi að hann eyddi miklum tíma í tölvuleiki.

Golfblaðamaðurinn Robert Lusetich sagði fyrr í kvöld á Twitter að samkvæmt sínum heimildum væri ásamt Tigers verra en áður. Hann geti ekki hreyft sig eðlilega, geti ekki setið uppréttur og sé með bílsætið í mesta halla. Ekki sé fyrirsjáanlegt hvenær hann snúi aftur á golfvöllinn.

„Það er furðulegt að á nokkurra mánaða fresti skuli einhver skálda upp frétt og hún sé meðhöndluð eins og hún væri sönn. Tiger vinnur sem fyrr að endurhæfingu sinni og við munum greina rétt frá stöðu mála þegar það er tímabært," sagði umboðsmaðurinn Mark Steinberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert