Clarke velur varafyrirliða

Darren Clarke, fyrirliði Evrópuliðsins í Ryder-keppninni í ár.
Darren Clarke, fyrirliði Evrópuliðsins í Ryder-keppninni í ár. AFP

Darren Clarke, fyrirliði Evrópuliðsins í Ryder-keppninni, hefur skipað þá Padraig Harrington, Paul Lawrie og Thomas Bjørn sem varafyrirliða liðsins. Clarke mun svo skipa tvo varafyrirliða í viðbót og verður tilkynnt hverjir það muni vera innan tíðar. 

Harrington hefur mestu reynsluna í Ryder-keppninni af varafyrirliðunum þremur, en hann hefur verið í sigurliði Evrópuliðsins í fjórum af þeim sex keppnum þar sem hann hefur tekið þátt.

Bjørn hefur hins vegar borið sigur úr býtum í öll þrjú skiptin sem hann hefur leikið með Evrópuliðinu í keppninni. 

Lawrie var í Evrópuliðinu sem tapaði á afar svekkjandi hátt í Brookline í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1999 og var síðan hluti af Evrópuliðinu sem vann ótrúlegan sigur í keppninni í Medinah í Bandaríkjunum árið 2012.

Clarke telur að varafyrirliðarnir muni leika stórt hlutverk þegar Evrópuliðið freistar þess að vinna Ryder-keppnina fjórða árið í röð, en Evrópuliðinu hefur ekki tekist það áður.

„Ég er hæstánægður með að Thomas, Padraig og Paul hafi þegið boð mitt um að gerast varafyrirliðar Evrópuliðsins í Ryder-keppninni í ár. Það þurfti ekkert að ganga á eftir þeim og ég er þakklátur fyrir það. Þeir koma með mikla reynslu inn í liðið og þekkingu á íþróttinni. Ég gæti ekki beðið um betri menn til þess að standa mér við hlið og koma með Ryder-bikarinn heim,“ sagði Clarke á blaðamannafundi í dag.  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert