Íslandsmót golfklúbba byrjar í dag

Axel Bóasson kom heim og leikur með Keili á mótinu.
Axel Bóasson kom heim og leikur með Keili á mótinu. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Íslandsmót golfklúbba 2016 hefst föstudaginn 24. júní en keppnin fékk nýtt nafn í vor en mótið hét áður Sveitakeppni GSÍ. Flestir af bestu kylfingum landsins verða í eldlínunni með sínum klúbbum um helgina og að venju má búast við hörkuviðureignum og glæsilegu golfi. Keppt er í fjórum deildum í karlaflokki og tveimur deildum í kvennaflokki.

1. deild karla fer fram á Korpúlfsstaðavelli hjá Golfklúbbi Reykjavíkur og 1. deild kvenna fer fram á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. GR er sigursælasti klúbburinn í karlaflokki með 24 titla og einnig í kvennaflokki með 17 titla.

Fjöldi titla í karlaflokki:

Golfklúbbur Reykjavíkur (24)
Golfklúbburinn Keilir (13)
Golfklúbbur Akureyrar (8)
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (4)
Golfklúbbur Suðurnesja (3)
Golfklúbburinn Kjölur (2)
Golfklúbbur Mosfellsbæjar (1)

Fjöldi titla í kvennaflokki:
Golfklúbbur Reykjavíkur (17)
Golfklúbburinn Keilir (13)
Golfklúbburinn Kjölur (3)
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (1)

Í karlaflokki hefur Golfklúbbur Mosfellsbæjar titil að verja en GM sigraði í fyrsta sinn í sögu klúbbsins í fyrra þegar keppnin fór fram á Hamarsvelli í Borgarnesi. Þar lék GM til úrslita gegn GKG.

Í kvennaflokki hefur Golklúbbur Reykjavíkur titil að verja en GR hafði betur gegn GK í úrslitaleik á Hólmsvelli í Leiru.

Keppninni lýkur á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert