Ræsirinn slær í gegn á Akureyri

Ungur ræsir hefur vakið nokkra kátínu á Íslandsmótinu í golfi en honum virðist takast býsna vel að líkja eftir hinum fræga ræsi á Opna breska meistaramótinu, Ivor Robson. 

Mbl.is ræddi stuttlega við ræsinn sem er Akureyringur að nafni Jón Heiðar Sigurðsson. Hann segist hafa kíkt á myndskeið af Robson og stúderað aðeins blæbrigðin í röddinni.

Áður hefur Jón Heiðar tekið að sér að vera ræsir á hinu árlega móti GA, Arctic Open, í miðnætursólinni. Segir hann allt annan brag vera á sinni framkomu þar enda er létt yfir Arctic. „Ef ég kannast við viðkomandi kylfing þá hef ég átt það til að finna eitthvað sniðugt um hann og skjóta því á viðkomandi um leið og ég kynni hann á 1. teig á mótinu. Þeir eru nokkrir sem hafa fipast við þetta en allir hafa gaman af enda létt yfir mönnum á Arctic. Ég er mun formfastari á Íslandsmótinu að sjálfsögðu. Þá segi ég bara hvað kylfingurinn heitir og frá hvaða klúbbi hann kemur,“ sagði Jón þegar mbl.is tók hann tali. 

Hann bætti því þó við að óskað hafi verið eftir því að hann hermdi eftir Robson. „Já ég var mjög varkár þegar mótið var að hefjast. Þá komu reynsluboltarnir Sigurpáll Geir Sveinsson og David Barnwell til mín og tjáðu mér að ræsirinn þyrfti að sýna meiri tilþrif. Eftir það lék ég mér aðeins meira með röddina og mér sýnist að fólk hafi bara gaman af þessu.“

Í meðfylgjandi myndskeiði sést Jón Heiðar við störf á Jaðarsvelli en til samanburðar má einnig sjá sjálfan Ivor Robson (sem nýlega er hættur að ræsa út á Opna breska eftir áratuga starf).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert