Í mót eftir 35 tíma ferðalag

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/golf.is

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari úr GR, skilaði sér í gær til Kína eftir 35 tíma ferðalag frá Bandaríkjunum. Ólafía mun hefja keppni í dag í Kína á Sanya Ladies Open, sem er hluti af Evrópumótaröðinni.

Hún náði að fara einn æfingahring í gær eftir komuna til landsins en þar sem undirbúningurinn er ekki ákjósanlegur fer hún inn í mótið með litlar væntingar.

„Ég var búin á því eftir æfingahringinn. Í stað þess að æfa eftir hringinn fór ég til sjúkraþjálfara og reyndi að hvílast eftir það. Ég er ekki að glíma við meiðsli heldur var bara þreytt eftir ferðalagið og alla setuna. En völlurinn er fínn og aðstæður fínar fyrir utan það að hér er ansi heitt núna,“ sagði Ólafía þegar Morgunblaðið náði sambandi við hana í gær, en Kristinn bróðir hennar er henni til halds og trausts í ferðinni.

Ólafía hefur staðið sig vel á golfvellinum á árinu. Hún hefur náð 16. sæti í móti á Evrópumótaröðinni, næststerkustu mótaröð í heimi, og náði besta skori allra kylfinga á Íslandsmótinu á Akureyri. Um síðustu helgi komst hún í gegnum 2. stig úrtökumótanna fyrir sterkustu mótaröð í heimi, LPGA í Bandaríkjunum. Ólafía lék stöðugt golf í mótinu og gerði fá mistök, sem er lykilatriði í úrtökumótum þar sem aðalatriðið er að komast áfram.

Sjá allt viðtalið við Ólafu Þórunni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert