Ólafía keppir um tugi milljóna

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur náð lengra en nokkur íslenskur kylfingur …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur náð lengra en nokkur íslenskur kylfingur í sögunni. Ljósmynd/GSÍ

Nýr veruleiki tekur við hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur á næsta ári þegar hún keppir fyrst íslenskra kylfinga á mótum á LPGA-mótaröðinni.

Ekki er strax ljóst á hvaða eða hve mörgum mótum Ólafía tekur þátt en alls eru 35 mót á mótaröðinni á næsta ári. Samkvæmt frétt á vef GSÍ er líklegt að Ólafía fái tækifæri strax á fyrsta móti ársins, á Bahama-eyjum 23.-29. janúar.

Ólafía varð sem kunnugt er í 2. sæti á lokaúrtökumótinu á Flórída um helgina, þar sem 20 kylfingar fengu þátttökurétt á LPGA. Það styrkir stöðu Ólafíu enn frekar að hafa endað svo ofarlega, þegar kemur að því að fá sæti í mótum, en í fyrra fengu til að mynda 15 af 20 keppendum úr lokaúrtökumótinu þátttökurétt á Bahama-mótinu.

Ólafía fékk rúmlega hálfa milljón króna í verðlaunafé fyrir að ná 2. sæti á lokaúrtökumótinu. Mun hærri fjárhæðir verða hins vegar í boði á LPGA-mótaröðinni. Ákveðið hefur verið að auka heildarverðlaunafé mótaraðarinnar um jafnvirði hálfs milljarðs króna fyrir næsta ár.

Heildarverðlaunafé á fyrrnefndu móti á Bahama-eyjum, fyrsta móti ársins, er 1,4 milljónir Bandaríkjadala eða um 157 milljónir króna. Á mótunum er verðlaunaféð yfirleitt á bilinu 1,3-2 milljónir dala. Efsta sætið gefur jafnan 15% heildarupphæðarinnar, sem á Bahama-mótinu myndi þýða 23,5 milljónir króna. Á þessu sama móti í ár fengu 80 kylfingar verðlaunafé og fékk sú í 80. sæti 2.452 dali, eða um 275 þúsund krónur.

Hæsta verðlaunaupphæðin á einu móti er á US Open í júlí, einu risamótanna fimm, þar sem samtals 5 milljónir dala eru í boði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert