Ólafía fer í aðgerðina 15. desember

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afrekskylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mun gangast undir aðgerð á fimmtudaginn og tekur sér frá frá æfingum yfir jól og áramót.  

Frá þessu er greint á vef Golfsambandsins. Ólafía tjáði mbl.is á dögunum að hún hefði greinst með skakkt bit þegar hún var 19 ára. Ekki er talið ráðlagt að láta laga slíkt með aðgerð fyrr en fólk er orðið fullvaxta. Síðustu misserin hefur Ólafía leitað að heppilegum tímapunkti til að fara í aðgerð án þess að það myndi trufla atvinnumennskuna í íþróttinni um of. Hún mun því taka því rólega yfir jól á áramót en heldur utan í janúar og keppir væntanlega í fyrsta skipti á LPGA-mótaröðinni í lok janúar. 

„Ég er að gera þetta vegna ráðlegginga frá tannlækninum mínum, en ég er með undirbit sem þarf að laga þar sem að tennurnar á mér slitna hratt eins og staðan er á þessu núna. Á undanförnum vikum hef ég hugsað mikið um hvernig ég gæti gert þetta án þess að hafa mikil áhrif á mótin sem eru framundan. Í desember og janúar eru einu tækifærin fyrir okkur atvinnukylfingina að gera slíka hluti. Við náðum að flýta aðgerðinni og ég ætti að geta jafnað mig í tæka tíð fyrir fyrsta mótið á LPGA,“ er haft eftir Ólafíu á vef GSÍ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert