Hvaleyrarvöllur fær góða dóma

Hvaleyrarvöllur.
Hvaleyrarvöllur. Ljósmynd/Keilir

Í sænsku útgáfunni af hinu kunna bandaríska golftímariti Golf Digest er settur saman listi yfir 100 bestu golfvelli á Norðurlöndum. Fimm íslenskir golfvellir ná inn á listann og Hvaleyrarvöllur hjá Keili í Hafnarfirði nær alla leið í 15. sæti.

Um þetta er fjallað í tímariti Golfsambands Íslands, Golf á Íslandi.

Hvaleyrarvöllur er í 15. sæti yfir bestu golfvellina á Norðurlöndunum samkvæmt þessari úttekt og tveir íslenskir vellir eru á topp 40 listanum. Aðrir íslenskir vellir sem komast á listann eru Vestmannaeyjavöllur (34.), Brautarholtsvöllur (40.), Korpan (60.) og Grafarholtsvöllur (93.)

Vitnað er í umsögn um Hvaleyrina í Golf á Íslandi og þar segir: „Ég var orðlaus þegar ég leit yfir völlinn á fyrsta teig – ég var samt efins um að þetta væri raunveruleikinn. Ég beið eftir grínholunni en hún kom bara aldrei – þetta er toppvöllur,“ segir í umsögn Golf Digest um Hvaleyrarvöllinn.

Umtalsverðar breytingar

Rætt er við Ólaf Þór Ágústsson, framkvæmdastjóra Keilis, í Golf á Íslandi vegna þessa, en hann er jafnframt formaður samtaka evrópskra vallarstjóra. Þar boðar Ólafur breytingar á Hvaleyrarvelli sem hann segir umtalsverðar.

„Það er frábært að fá svona umsögn og styrkir okkur í því að gera enn betur í framtíðinni. Á næstu árum verða gerðar umtalsverðar breytingar á Hvaleyrarvelli og við eigum því enn mikið inni. Svona umsögn er hvetjandi fyrir okkur í Keili og ekki síst Hafnarfjarðarbæ að eiga golfvöll sem vekur athygli hjá erlendum kylfingum,“ segir Ólafur.

Besti völlurinn í Svíþjóð

Í úttekt Golf Digest fá sænskir golfvellir tvö efstu sætin. Bro Hof Slott GC, The Stadium Course er besti golfvöllur á Norðurlöndum samkvæmt þessu og í öðru sæti er Falsterbro GK.

Völlur í Danmörku fær þriðja sætið en það er The Scandinavian GC, Old Course. Besti völlur í Finnlandi samkvæmt þessu er Kytäjä Golf, South East Course og er hann í fjórða sæti. Efsti völlurinn á listanum í Noregi er í sjötta sæti en það er Miklagard Golf.

Völlurinn á fleiri listum

Hafnfirðingar hafa áður fengið klapp á bakið fyrir golfvöllinn á Hvaleyrinni. Í byrjun árs árið 2012 var Hvaleyrarvöllur á lista yfir 100 bestu velli í Evrópu hjá netmiðlinum Top100 golfcourses . „Með þessu er verið að gefa íslensku golfi vissan gæðastimpil,“ sagði Ólafur Þór þá í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert