Stórbrotin spilamennska Valdísar

Valdís Þóra Jónsdóttir
Valdís Þóra Jónsdóttir ljósmynd/GSÍ

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni á virkilega góða möguleika á því að tryggja sér sæti á Evrópumótaröðinni í golfi á næsta ári þegar einn hringur er eftir í lokaúrtökumótinu í Marokkó. 

Valdís fór hamförum á fjórða hring mótsins í dag og lék við hvern sinn fingur. Skilaði hún skori upp á aðeins 65 högg sem er sjö högg undir pari vallarins. Stórbrotin frammistaða.

Er hún á samtals ellefu höggum undir pari og í 3. - 6. sæti sem stendur. Valdís komst því auðveldlega í gegnum niðurskurð keppenda en sextíu efstu kylfingarnir fá að leika lokahringinn á morgun. Fór hún upp um fjórtán sæti á milli daga.

Að morgundeginum loknum fá þrjátíu efstu kylfingarnir keppnisrétt á Evrópumótaröðinni árið 2017. Með því að vera á meðal sextíu efstu er Valdís þegar búin að tryggja sér takmarkaðan keppnisrétt sem þýðir að hún ætti að fá boð í nokkur mót. En verði hún á meðal þrjátíu efstu þá skiptir það ekki máli. 

Kylfingar í kringum þrítugasta sætið eru nú á samtals þremur höggum undir pari í mótinu og staða Valdísar er því afskaplega góð þótt hlutirnir geti gerst hratt í mikilvægum golfmótum. Morgundagurinn er í það minnsta mjög spennandi fyrir Akurnesinginn sem gæti orðið þriðja íslenska konan til að vinna sér inn fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í golfi. Á undan hafa gengið Ólöf María Jónsdóttir úr Keili og Ólafía Þórunn Krinstinsdóttir úr GR sem komst í gegnum úrtökumótin í Marokkó í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert