Heimir ráðinn til Golfklúbbs Akureyrar

Heimir Örn Árnason, til hægri, að störfum sem handknattleiksdómari fyrr …
Heimir Örn Árnason, til hægri, að störfum sem handknattleiksdómari fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Handknattleiksmaðurinn gamalkunni Heimir Örn Árnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar og tekur við um áramótin af Ágústi Jenssyni sem er á förum til starfa hjá þýska golfklúbbnum St. Leon Rot þar sem hann verður aðstoðarvallarstjóri.

Heimir lék með handknattleiksliðum KA, Akureyrar, Vals, Stjörnunnar, Fylkis og Hamranna, ásamt því að spila með Haslum í Noregi og Bjerringbro/Silkeborg í Danmörku. Þá hefur hann verið þjálfari, m.a. hjá úrvalsdeildarliði Akureyrar, og verið dómari í efstu deildum karla og kvenna í handboltanum. Heimir lék 23 landsleiki fyrir Íslands hönd og spilaði m.a. í úrslitakeppni EM 2006 með íslenska landsliðinu.

„Þetta er starf sem ég er gríðarlega spenntur fyrir. Mér þykir mjög vænt um GA og vil leggja mitt af mörkum til að klúbburinn vaxi og dafni áfram. Ég tek við góðu búi frá fráfarandi framkvæmdastjóra og hlakka jafnframt til góðra samskipta og samstarfs við félaga, gesti og samstarfsaðila GA.“ segir Heimir Örn Árnason á vef Golfklúbbs Akureyrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert