Sá yngsti undir 60 högg

Justin Thomas horfir á eftir kúlunni á mótinu á Havaí.
Justin Thomas horfir á eftir kúlunni á mótinu á Havaí. AFP

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas varð í nótt yngsti kylfingur sögunnar til að leika hring á minna en 60 höggum á bandarísku PGA-mótaröðinni í golfi.

Thomas er 23 ára gamall og hann lék draumahringinn á fyrsta deginum á Sony Open á Havaí, bandarísku eyjunni í Kyrrahafi, en hann spilaði á 59 höggum sem er ellefu höggum undir pari vallarins. Hann náði átta fuglum og tveimur örnum á hringnum og er alls sjöundi kylfingurinn í sögu PGA sem nær þessum áfanga.

Thomas fylgdi með þessu eftir sigri sínum í Meistarakeppninni (Tournament of Champions) sem lauk á Havaí á mánudaginn en með þeim árangri komst hann í tólfta sæti heimslistans.

David Duval var áður yngstur til að fara undir 60 höggin á PGA en hann var 27 ára gamall þegar hann lék þann leik árið 1999. Hinir fimm sem hafa náð þessu eru Al Geiberger, Chip Beck, Paul Goydos, Stuart Appleby og Jim Furyk.

Thomas er með þriggja högga forystu á landa sinn Hudson Swafford og fjögurra högga forystu á Rory Sabbatini frá Suður-Afríku eftir þennan fyrsta hring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert