Tvívegis leið yfir Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hin viðamikla kjálkaaðgerð sem atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir gekkst undir í desember virðist hafa tekið meiri toll af henni en fram hefur komið. 

Ólafía hefur nú náð sér að fullu eftir aðgerðina eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum. Hún er hins vegar í viðtali við Golfweek í Bandaríkjunum og þar fer hún lauslega yfir ýmislegt sem gekk á eftir aðgerðina. 

„Ég er nánast að læra að tyggja upp á nýtt,“ er haft eftir Ólafíu en hún var á fljótandi fæði í liðlega fjórar vikur. 

Hún segist jafnframt hafa heyrt ýmsar miður skemmtilegar sögur um aðgerðir sem þessar áður en að henni kom en segir sína reynslu ekki eins slæma. Hún hafi þó verið mjög slöpp um tíma og tvívegis hafi liðið yfir hana á baðherberginu. Hún var of máttfarin til að þola gönguna úr rúminu og á klósettið. Móðir hennar og unnusti Ólafíu báru hana stundum á milli en brugðu síðan á það ráð að ýta henni í skrifborðsstól úr svefnherberginu og inn á baðherbergið, á meðan þrekið bauð ekki upp á meira. 

Ólafía hélt til Bahamaeyja í gær þar sem hún mun takast á við sitt fyrsta mót á bandarísku LPGA-mótaröðinni. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á sviðinu eftir að hafa hafnað í …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á sviðinu eftir að hafa hafnað í 3. sæti í kjöri íþróttamanns ársins, skömmu eftir aðgerðina. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert