Ólafía spilaði stórkostlega og flaug áfram

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á teig á öðrum hring á Pure …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á teig á öðrum hring á Pure Silk-mótinu á Bahama-eyjum. Ljósmynd/seth@golf.is

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði hreint út sagt stórkostlega á öðrum hring á Pure Silk-mótinu í LPGA-mótaröðinni á Bahama-eyjum í kvöld. Ólafía spilaði á fimm höggum undir pari, er á sjö undir pari samtals og hreinlega flaug í gegnum niðurskurðinn. Hún er í 20.-24. sæti þegar mótið er hálfnað.

Ólafía byrjaði á seinni níu holunum í dag. Hún byrjaði á þremur pörum og fékk svo tvo fugla áður en hringurinn var hálfnaður. Ólafía bætti svo um betur á seinni hlutanum, fékk þá sex pör og þrjá fugla og lék samtals á 68 höggum eða fimm undir pari.

Ólafía tapaði sem sagt ekki höggi á hringnum, fékk þrettán pör og fimm fugla. Hún er jöfn fleiri kylfingum í  20.-24 sæti á sjö höggum undir pari, en áætlað var að skera niður við tvö högg undir pari. Hún var því aldrei í hættu á því að falla úr leik.

Ólafía heldur því áfram keppni um helgina og er sannarlega að sýna frábæra takta á sínu fyrsta móti á LPGA-mótaröðinni, sterkustu kvennamótaröð í heimi.

Fylgst var með gangi mála hjá Ólafíu holu fyrir holu hér á mbl.is.

9. Kemur í hús án þess að tapa höggi, kláraði á pari. Hreint út sagt stórkostlegt!

8. Ólafía hendir í fimmta fuglinn í dag, þetta er með ólíkindum. 8. brautin er par 4 og hún er nú samtals á sjö höggum undir pari, jöfn fleiri kylfingum í 20. sæti. Hún flýgur í gegnum niðurskurðinn!

7. Þessi par 5 braut endar á pari. Nema hvað! Tvær holur eftir og Ólafía, ég minni á að hún er á -4 höggum í dag og -6 samtals.

6. Fjórði fuglinn kemur á 6. holu, sem er par 4. Er núna jöfn fleiri kylfingum í 24. sæti. Þetta er snilld!

5. Aðeins fjórar holur eftir og Ólafía hefur ekki enn tapað höggi. 5. holan er par 3 og hún parar hana.

4. Fjórðu brautina, par 5, spilar Ólafía á parinu. Örugg spilamennska hjá henni eins og áður á hringnum. Nú er bara að klára með stæl.

3. Þriðji fuglinn í hús í dag, og það á par 3 holu. Upphafshöggið vel á flötinni og púttið ofan í. Stórglæsilegt. Ólafía hefur hitt átta af níu brautum í dag og er samtals á -5 og jöfn fleiri kylfingum í 32. sæti. Þetta er algjörlega geggjað!

2. Það er ekki að spyrja að því, níunda parið komið í hús á þessari par 4 braut og Ólafía hefur ekki tapað höggi í dag!

1. Nú er Ólafía komin á fyrri níu holurnar, og hún spilar fyrstu holu vallarins á pari. Nema hvað!

18. Ólafía klárar fyrri níu holurnar, sem reyndar eru seinni níu holur vallarins í þetta sinn, á sjöunda parinu í dag. Frábær spilamennska hjá henni það sem af er.

17. Og það er sjötta parið á sautjándu holu, sem er par 3. Ein hola eftir og þá er hringurinn hálfnaður. Ólafía er jöfn á -4 höggum samtals.

16. Annar fugl í höfn, glæsilegt! Á þessari par 4 braut nær Ólafía í annan fugl sinn í dag og er samtals á fjórum höggum undir pari.

15. Fimmta parið í höfn, Ólafía leikur par 5 brautina á pari og er samtals á einu höggi undir í dag en þremur undir pari samtals. Hún er jöfn fleiri kylfingum í 49. sæti, en það þýðir lítið á þessari stundu þegar flestir kylfingar eru úti og staðan er fljót að breytast.

14. Ólafía fékk skolla á þessari par 4 braut í gær, en nú fær hún parið og rétt missti pútt fyrir fugli. Allt að líta vel út.

13. Fyrsti fuglinn kominn í hús! Par 4 braut og Ólafía kom boltanum alveg upp við stöng í öðru höggi. Kláraði púttið af öryggi og er komin á -3 samtals!

12. Ólafía fékk skolla á þessari par 3 holu í gær, en tekur hana núna á pari. Allt að ganga vel hér í byrjun hjá henni.

11. Par 5 brautina spilar Ólafía einnig á parinu og er því enn samtals á -2 höggum undir pari.

10. Ólafía spilar fyrstu brautina á pari, fjórum höggum. Sem fyrr segir leikur hún svokallaðan öfugan hring, þar sem seinni níu holurnar eru spilaðar fyrst hjá henni í dag.

Það er nokkuð vindasamt á Bahama-eyjum í dag og munar talsvert frá því í gær.

Ólafía er að brjóta blað í golfsögu Íslendinga, en hún er fyrsti kylfingurinn sem tekur þátt í þessari sterkustu kvennamótaröð heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert