Erfiður þriðji hringur hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn undirbýr pútt í dag.
Ólafía Þórunn undirbýr pútt í dag. Ljósmynd/Sigurður Elvar Þórólfsson

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir átti sinn slakasta hring á Pure Silk-mót­inu í LPGA-mótaröðinni á Bahama-eyj­um í kvöld. 

Hún lék á fjórum höggum yfir pari eftir að hafa fengið fimm skolla og einn fugl á holunum 18. Ólafía er í 66.-76. sæti af þeim 79 keppendum sem komust í gegnum niðurskurðinn í gær. 

Ólafía byrjaði vel í dag og fékk par á fyrstu fjórum holunum en á þeirri fimmtu fékk hún skolla. Á 9. og 10. holu fékk hún tvo skolla í röð en hún bætti svo upp fyrir það með að fá fugl á 12. holu. 

Því miður fyrir Ólöfu, fékk hún skolla á síðustu tveim holunum og spilaði hún hringinn því á 77 höggum, sem er hennar langslakasti hringur fram að þessu. Fyrsta hringinn spilaði hún á 71 höggi og annan hringinn á 68 höggum. 

Ólafía er þrátt fyrir þetta á þrem höggum undir pari, sem er ansi vel gert hjá kylfingi sem er að keppa á sínu fyrsta LPGA móti. 

18. Slæmur endir á erfiðum hring hjá Ólafíu því hún fær annan skolla á síðustu holunni og leikur hún því þriðja hringinn á þrem höggum yfir pari og er það langslakasti hringur hennar mótinu hingað til. 

17. Skolli á 17. holunni er niðurstaðan. Hennar fjórði skolli í dag og er þetta búið að vera erfiðasti dagurinn hennar á mótinu til þessa. 

16. Fínt par á 16. holunni og eru nú aðeins tvær holur eftir. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvað Ólafía gerir núna. 

15. Ólafía gerir par á 15. holu og hefur hún því þrjár holur til að reyna að vinna til baka þau högg sem hún hefur tapað á hringnum. 

14. Annað parið í röð hjá Ólafíu. Það væri óskandi ef hún gæti klárað hringinn með í það minnsta einum fugl. 

13. Par á 13. holu hjá Ólafíu. Það virðist vera komið ákveðið öryggi í spilið hennar á ný eftir tvo skolla í röð fyrr í dag. 

12. Frábært. Ólafía nær sínum fyrsta fugli í dag á 12. holu sem er par 3 hola og fer hún því aftur í -5 undir pari vallarins. Meira svona takk.  

11. Eftir tvo skolla í röð er Ólöf eflaust fegin því að ná í par á 11. holu. 

10. Annar skollinn í röð hjá Ólafíu og er hún nú -4 höggum undir parinu. Versti dagurinn hingað til fram að þessu og er hún dottin niður í 65. sæti. 

9. Annar skolli dagsins hjá Ólafíu lítur dagsins ljós. Hún hefur því spilað fyrri níu holurnar á samtals +2 yfir pari. Hún er þó -5 höggum undir pari sem er mjög góður árangur. Hún vill hins vegar eflaust gera betur sjálf. 

8. Enn eitt parið hjá Ólafíu. Þessi spilamennska er gríðarlega góð og örugg. 

7. Ólafía fær sjötta parið sitt í dag. Örugg og góð spilamennska fram að þessu í dag. Það væri þó óskandi að fá einn fugl til að svara fyrir skollann áðan. 

6. Hún svarar fyrir skollann á fimmtu braut með því að ná í fimmta parið sitt á hringnum á sjöttu braut. Ólafía er í 50. sæti sem stendur en aðeins tveim höggum frá 27. sæti. 

5. Ólafía fær sinn fyrsta skolla á fimmtu holu. Vonum að hún láti það ekki á sig fá og komi sterk til baka. Hún er því á -6 höggum undir pari þessa stundina.

4. Fjórða parið á fyrstu fjórum holunum hjá Ólafíu. Þvílíkt öryggi hjá henni. 

3. Ólafía heldur áfram að leika öruggt og gott golf. Þriðja holan er par 3 hola og fór Ólafía hana á þrem höggum. Hún er í 42. sæti sem stendur en það er stutt í sætin fyrir ofan.  

2. Örugg byrjun hjá Ólafíu. Tvö pör á fyrstu tveim holunum. 

1. Ólafía byrjar þriðja hringinn á öruggu pari og er hún því enn á -7 höggum undir pari. Ólafía er sem stendur í 32. sæti ásamt 17 öðrum kylfingum. 

Ólafía hefur aðeins tapað tveimur höggum á fyrstu 36 holunum á sínu fyrsta móti á LPGA-mótaröðinni, sem er stórbrotinn árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert