Gríðarlega góð frumraun Ólafíu

Ólafía Þórunn fylgist með í dag.
Ólafía Þórunn fylgist með í dag. Sigurður Elvar Þórólfsson

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lauk leik á Pure Silk-mót­inu í LPGA-mótaröðinni á Bahama-eyj­um rétt í þessu. Mótið var það fyrsta sem hún tekur þátt í á mótaröðinni, sem er sú sterkasta í heimi, og segja má að hún hafi sannað að hún á heima á meðal þeirra bestu.

Ólafía hafnaði í 69.-72. sæti á samtals fimm höggum undir pari. Hún lék hringinn í dag á tveim höggum undir pari og gekk hann heilt yfir mjög vel, þrátt fyrir tvöfaldan skolla á 16. holu. Ólafía fékk fjóra fugla og 13 pör í dag. 

Hún byrjaði mjög vel á mótinu og lék fyrsta hringinn á 71 höggi eða tveim höggum undir pari. Hún gerði svo gott betur á öðrum hring, þar sem hún fór á kostum og lék á 68 höggum og var hún þá komin samtals fimm undir pari vallarins. Ólafía komst örugglega í gegnum niðurskurðinn sem gerður var eftir fyrstu tvo hringi mótsins, og verður það að teljast mikið afrek á hennar fyrsta móti. 

Hún var í 20.-24. sæti mótins er hún hóf leik á þriðja degi. Því miður fyrir Ólafíu gekk þriðji hringurinn ekki eins vel. Hún lék hann á 77 höggum eða fjórum höggum yfir pari og féll fyrir vikið niður í 66.-76. sæti. Hún stóð sig hins vegar mjög vel í dag og skilaði góðum árangri í hús.  

Heilt yfir var spilamennska Ólafíu á mótinu virkilega góð og hún getur verið stolt árangrinum. Hún hitti yfirleitt vel á flötina og var örugg í sínum aðgerðum. Hún lék þrjá hringi af fjórum, undir pari vallarins, sem er glæsilegur árangur á hennar fyrsta móti. Hún fékk marga fugla, tapaði fáum höggum og þá sérstaklega á degi eitt, tvö og fjögur. Fyrsta mótið er búið og hún kemur reynslunni ríkari á næsta mót og vonandi fáum við að sjá enn betri árangur á næstunni. 

Fylgst var með gangi mála á mbl.is.

9. Flottur endir á góðu fyrsta móti hjá Ólafíu. Par á síðustu holunni og hafnar hún því í 69.-72. sæti á samtals fimm höggum undir pari. 

8. Fínt par hjá Ólafíu fyrir síðustu holuna á fyrsta mótinu hennar í LPGA mótaröðinni. Hún hefr staðið sig vel hingað til og þetta fer í reynslubankann hjá henni. Hún er enn fimm höggum undir pari og í 69. sæti. 

7. Svona viljum við hafa þetta. Ólafía nær í fugl fyrir tvær síðustu holurnar. Hún er þar með komin fimm höggum undir pari vallarins og í 69. sæti. 

6. Sjöunda parið í röð komið í hús. Ólafía er í 72. sæti, fjórum höggum undir pari. Styttist í að hún ljúki leik á sínu fyrsta móti í LPGA mótaröðinni. 

5. Enn eitt parið. Nú eru aðeins fjórar holur eftir og það stefnir allt í að hún klári mótið af miklu öryggi. 

4. Ólafía heldur sínu striki og nær pari á fjórðu holu. Hún er því fjórum höggum undir pari og í 71. sæti. 

3. Þriðja parið í röð á seinni níu holunum. Ekki hægt að kvarta yfir slíkri spilamennsku. 

2. Fín byrjun Ólafíu á seinni hluta hringsins, tvö pör og allt öruggt. 

1. Ólafía byrjar seinni níu holurnar á góðu pari. Alltaf gott að byrja á pari. 

18. Fínn endir á þessum ágæta hring, ef litið er framhjá 16. holunni. Par á 18. holunni er staðreynd og er Ólafía nú hálfnuð á sínum síðasta hring á sínu fyrsta móti á LPGA mótaröðinni. 

17. Ólafía svarar vel fyrir síðustu holu og nær í fugl á 17. holu. Hún hefur heilt yfir spilað mjög vel en vandræðin á 16. holu hafa kostað hana. 

16. Vond hola fyrir Ólafíu og er tvöfaldur skolli staðreynd. Allt það góða sem hún hefur gert á hringnum hingað til, er því miður farið í vaskinn. Vonum að hún komi sterk til baka eftir þessi vonbrigði. 

15. Flottur hringur Ólafíu heldur áfram. Öruggt par á 15. holu og hefur hún ekki enn tapað höggi á hringnum. 

14. Vel gert Ólafía Þórunn! Ólafía fær sinn annan fugl á fyrstu fimm holunum sem er glæsileg byrjun og er hún nú samtals fimm höggum undir pari. Ólafía er sem stendur í 63. sæti. 

13. Annað par Ólafíu í röð og flott byrjun hennar heldur áfram. 

12. Öruggt par á 12. holu hjá Ólafíu. Hún hefði eflaust tekið því fyrir daginn í dag að vera að spila á einu höggi undir pari eftir þrjár holur. 

11. Glæsilegt. Ólafía fær fugl á 11. holu sem er par 5 hola. Virkilega sterk byrjun hjá henni. 

10. Ólafía fer ágætlega af stað og spilar fyrstu holuna, sem er að vístu 10. hola vallarins, á því að gera fínt par. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert