„Púttin hljóta að fara að detta“

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir komst í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi á fyrsta móti ársins á LET-Evrópumótaröðinni í golfi í Ástralíu eins og fram kom hér á mbl.is fyrr í morgun.

„Staðan er allt í lagi eftir 36 holur en ég setti ekki pútt ofan í á öðrum hringnum. Ég var í fínum færum, hitti 17 flatir í tilætluðum höggafjölda, og var með 35 pútt, sem er of mikið. Þau hljóta að fara að detta,“ sagði Valdís Þóra í viðtali við golf.is í morgun, en hún lék annan hringinn á 73 höggum, á pari vallarins, og er tveimur höggum undir pari í 35.-46. sæti.

„Aðstæður voru svipaðar í dag og á fyrsta hringnum. Það bætti aðeins í vindinn eftir hádegi eins og það gerir hér á þessum slóðum. Creek-völlurinn sem ég lék í dag er með fleiri vötn en Beach-völlurinn. Vindáttin var með þeim hætti í dag að það var erfiðara að ná inn á par 5 holurnar í tveimur höggum – það var auðveldara í gær,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir við golf.is.

Nicole Broch Larsen frá Danmörku er í forystu á 12 höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert