Trump baðst afsökunar

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók upp símann á dögunum og sló á þráðinn til eins þekktasta kylfings Evrópu með það fyrir augum að biðjast afsökunar á að hafa vitnað í sögu um kylfinginn varðandi meint kosningasvindl.

Þjóðverjinn Bernhard Langer greindi frá þessu á blaðamannafundi í gær vegna Allianz-mótsins. Sagðist hann hafa fengið símhringingu frá Trump í síðustu viku.

„Við ræddum saman í síma og hann var mjög hreinskilinn. Ef ég hefði móðgast vegna einhvers þá vildi hann biðjast afsökunar á því. Ég baðst einnig afsökunar á röngum ummælum. Ég hafði gaman af því að ræða stuttlega við hann og þetta var góð viðleitni af hans hálfu því hann hefur margt annað að hugsa um en þið vitið, þennan kylfing þarna, Bernhard Langer. Hann hefur margt mun mikilvægara að fást við. En að hann skyldi taka sér tíma í að spjalla við mig og fá málið á hreint er nokkuð merkilegt,“ sagði Langer á blaðamannafundinum.

New York Times greindi frá því í síðasta mánuði að Trump hefði sagt sögu í Hvíta húsinu um að Langer hefði staðið í röð og beðið eftir því að fá að greiða atkvæði í kosningunum. Í sögunni ræðir starfsmaður á kjörstað svo við Langer og upplýsir hann um að hann mætti ekki kjósa. Þá segir, að fyrir framan kylfinginn hafi verið kjósendur sem litu ekki út fyrir að mega taka þátt í atkvæðagreiðslunni. En þegar þeir fengu svo að kjósa yfirgaf Langer svæðið ósáttur.

Langer, sem er þýskur ríkisborgari, en með varanlegt dvalarleyfi í Bandríkjunum, má ekki kjósa í landinu. Hann sagði á blaðamannafundinum að hann hefði aldrei talað við Trump. „Ég sagði vini mínum sögu og hann sagði öðrum vini frá henni og svo koll af kolli. Á einhverjum tímapunkti, sex einstaklingum síðar, þekkti einhver einhvern í Hvíta húsinu og þannig gekk þetta fyrir sig, er það ljóst?“ sagði Langer.

„Þetta er afar undarlegt, því það er verið að ræða um þig án þess að rætt hafi verið við þig. Og þegar þú lest fréttina, og það er ekki eins og þetta sé staðreynd, þetta er meira svona, ó ég heyrði þetta frá einhverjum, og ég er með heimildarmann sem sagði mér frá þessu, og ég á vin sem sagði mér frá þessu.“

Sagan hefði því ferðast á milli manna áður en hún barst til eyrna forsetans. Auk þess sagði Langer blaðið ekki hafa rætt við sig vegna fréttarinnar en hefði rætt við dóttur sína og haft rangt eftir henni. Langer sagðist vonsvikinn yfir þessum vinnubrögðum en við því gæti hann ekkert gert.

Bernhard Langer er 59 ára gamall Þjóðverji sem búið hefur meira og minna í Bandaríkjunum í rúma þrjá áratugi. Langer á mikilli velgengni að fagna á golfvellinum og er í hópi frægustu íþróttamanna Þýskalands. Ferill hans reist hæst þegar hann vann hið fræga Masters-mót í Bandaríkjunum og gerði það raunar tvisvar.

Á síðustu árum hefur Langer verið sigursæll á öldungamótaröðinni bandarísku sem nýtur nokkurra vinsælda. Í Evrópu nýtur Langer mikillar virðingar og þá ekki síst vegna vasklegrar framgöngu í keppninni um Ryder-bikarinn í gegnum árin. Var hann í liði Evrópu sem sneri valdataflinu í keppninni við þegar Evrópa fór að vinna Bandaríkin reglulega. Hefur hann einnig verið liðsstjóri Evrópu í Rydernum. 

Bernhard Langer.
Bernhard Langer. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert