„Erfiða hlutanum er lokið“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

„Dagurinn í dag var svolítil áskorun. Það blés svolítið á móti en ég ákvað að hætta aldrei, og alls ekki gefast upp,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við mbl.is en Ólafía komst í gegnum niðurskurðinn á ævintýralegan hátt á ISPS Handa-mótinu í golfi í Ástralíu í nótt en mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni.

Það leit ekki vel hjá Ólafíu en hún tryggði sig áfram með því að fá fugla á tveimur síðustu holunum og þar með spilar hún tvo hringi til viðbótar á þessu öðru móti sínu í LPGA-mótaröðinni. Ólafía lék annan hringinn á 74 höggum eða einu höggi yfir pari og er á pari eftir tvo fyrstu hringina.

„Vindurinn var að stríða mér mjög mikið. Nokkrum sinnum breyttist hann á meðan ég var að slá og ekkert sem maður getur gert í því, og ég þar af leiðandi missti grínið. Á síðustu holunum vissi ég að ég þyrfti að gefa allt. Ég krækti fyrir erni á 17. holu, það var sárt, en alveg í takt við hinar krækjurnar á holunum á undan. Á 18. holu fékk ég svo loksins eitthvað gott til baka. Núna er erfiða hlutanum lokið og bara eftir að njóta,“ sagði Ólafía Þórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert