Stáltaugar Ólafíu - Komst áfram

Ólafía Þórunn slær að flöt.
Ólafía Þórunn slær að flöt. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á 74 höggum, einu höggi yfir pari á öðrum degi Opna ástralska mótinu í golfi í Adelaide í nótt en það er annað mót ársins í LPGA-mótaröðinni, sterkustu mótaröð heims.

Ólafía komst naumlega í gegnum niðurskurðinn, þökk sé glæsilegum tilþrifum á síðustu tveim holunum er útlitið var orðið svart. Ólafía fékk þrjá skolla í röð á 13-15 holu og var hún komin tveim höggum yfir par vallarins fyrir vikið. 

Þegar tvær holur voru eftir þurfti hún nauðsynlega á tveim fuglum að halda til að halda í vonina um að komast í gegnum niðurskurðinn. Ólafía gerði sér lítið fyrir og náði í fuglana tvo.

Ólafía fékk þrjá fugla, fjóra skolla og ellefu pör í nótt og spilaði samtals á einu höggi yfir pari og er á pari eftir hringina tvo. Hún er í 63. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum.

Mbl.is fylgdist með gangi mála hjá Ólafíu í nótt. 

6:45 Ólafía Þórunn kemst áfram. Hún er á parinu en þeir kylfingar sem eru á +1 eru fallnir úr leik. Ólafía spilar þar með tvo hringi til viðbótar og við fögnum því innilega.

6:10 - Ég skal segja ykkur það. Ólafía fékk fugl á síðustu tveim holunum og er að öllum líkindum komin í gegnum niðurskurðinn. Þetta leit ekki vel út fyrir nokkrum mínútum síðan en Ólafía var ansi sterk þegar mest á reyndi. Hún er ekki alveg gulltryggð í gegnum niðurskurðinn, þar sem einhverjir kylfingar eiga eftir að klára hringinn. Líkurnar á að hún komist í gegnum niðurskurðinn eru hins vegar töluvert meira en minni. Hún er í 66.-77. sæti þegar þetta er skrifað. 

6:06 - Amy Boulden frá Wales er búin að spila hringinn ótrúlega vel. Sjö undir pari takk fyrir. 

5:53 -  JÁ! Þessi fugl á 17. holu getur verið gríðarlega mikilvægur um framhald Ólafíu í þessu móti. Hún er nú einu höggi yfir pari vallarins og ein hola eftir. Eins og staðan er akkurat núna, þarf hún fugl á síðustu holunni, annars er hún úr leik. 

5:48 - Ólafía nær í par á 16. holunni og er hún dansandi á línunni við niðurskurðinn. Það gæri farið svo að hún þurfi fugl á síðustu tveim holunum til að komast í gegnum niðurskurðinn. Hún er í 89.-100. sæti. 

5:31 - Aftur. Þriðji skollinn í röð hjá Ólafíu og er hún allt í einu komin í mikla hættu um að komast ekki í gegnum niðurskurðinn. Hún er komin tvo yfir pari vallarins. Eins og staðan er núna verður hún hreinlega að fá fugl til að falla ekki úr leik. 

5:12 - Ekki gott - Ólafía fær sinn annan skolla í röð og er hún allt í einu komin einu höggi yfir pari. Þetta er fljótt að breytast. 

4.53 -  Þar fór í verra. Skolli á 13 holu og er hún nú komin á parið. Hún hefur fimm holur til að laga stöðuna. Vonandi að hún fari aftur undir par vallarins við hið fyrsta tækifæri. 

4:50 - Sjötta parið hjá Ólöfu í röð, við tökum því. Hún er í 49.-63. sæti. 

4:35 - Aftur par. Gríðarlega örugg byrjun á seinni níu holunum hjá Ólafíu. Hún á tvö högg inni á þá kylfinga sem eru ekki að komast í gegnum niðurskurðinn. 

4:20 - PAR! Ólafía Þórunn byrjar seinni níu holurnar á pari. Hún er í 51.-66. sæti þessa stundina og enn á leiðinni í gegnum niðurskurðinn. 

4:01 - Ólafía klárar fyrri níu holurnar með pari og er hún því samtals á parinu þegar þessi dagur tvö er hálfnaður. Það er vel af sér vikið hjá Ólafíu en það væri að sjálfsögðu mjög vel séð að ná að spila daginn undir pari vallarins. Sjáum hvort það takist. 

4:00 Lydia Ko, einn besti kylfingur heims er að leika á sama skori og Ólafía, svo það er alls ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. 

3:45 - Annað par í röð hjá Ólafíu eftir skollann á sjöttu braut og er hún enn á samtals einu höggi undir pari vallarins. Lizette Salas, Pornanong Phatlum og Katherine Kirk eru jafnar í efsta sæti á átta höggum undir pari. 

3:24 - Vel gert hjá Ólafíu að ná í par á sjöundu holu eftir vonbrigðin á sjöttu holunni. Hún er enn á parinu og enn á góðri leið með að komast í gegnum niðurskurðinn, sem hlýtur að vera hennar fyrsta markmið. 

3:14Smá bakslag hjá Ólafíu og fyrsti skollinn hennar kemur á sjöttu holu og er hún því samanlagt á pari eftir sex holur. Vonum að hún komi sterkari til baka. Hún er í 46.-68. sæti. 

2:56 - Ólafía fylgir fuglinum eftir með pari. Fimm holur, fjögur pör og einn fugl. Það er alls ekki hægt að kvarta yfir því. Hún er í 38.-48. sæti núna. 100 efstu kylfingarnir komast í gegnum niðurskurðinn og er hún því á góðri leið með það. 

2:37 - Glæsilegt! Ólafía fær sinn fyrsta fugl á hringnum og fer samanlagt tveim höggum undir par vallarins. Hún fer upp í 35.-52. sæti. Ólafía er aðeins einu höggi frá topp 25 á mótinu. Hún getur náð ansi langt ef hún sýnir aðeins meiri stöðugleika en í gær og farið að blanda sér í topp 10 sætin. Eitt skref í einu. 

2:20 - Ólafía er búin að spila fyrstu þrjár holurnar á pari og er hún enn einu höggi undir pari. Það er ekki hægt að kvarta yfir því. Vonum að fyrsti fuglinn fari að koma.  

Lizette Salas er í efsta sæti á níu höggum undir pari. 

1:49 - Þá er Ólafía mætt á stjá. Hún fær par á fyrstu holunni. Sterkari byrjun en í gær þar sem hún byrjaði á skolla. Ólafía er sem stendur í 48.-66. sæti og með þessari spilamennsku kemst nokkuð örugglega í gegnum niðurskurðinn eftir daginn í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert