Ólafía fór upp um 12 sæti

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í fínni stöðu í Adelaide.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í fínni stöðu í Adelaide. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir færðist upp um tólf sæti þegar allir keppendur á Opna ástralska mótinu í golfi í Adelaide höfðu lokið keppni snemma í morgun.

Eins og fram kom í beinni lýsingu mbl.is lék Ólafía sinn besta hring, þann þriðja, og spilaði hann á tveimur höggum undir pari eftir frábæran endasprett þar sem hún fékk tvo fugla á síðustu þremur holunum.

Hún er á tveimur höggum undir pari vallarins fyrir lokahring mótsins og eftir að allar höfðu lokið hringnum var hún komin tólf sætum ofar en þegar hún kláraði sjálf. Þá var hún í 35.-39. sæti en er nú í 23.-29. sæti sem er frábær staða í keppni við bestu kylfinga heims.

Ólafía hefur keppni á lokahringnum laust fyrir klukkan eitt í nótt.

Lizette Salas frá Bandaríkjunum er með forystuna fyrir lokahringinn en hún er á 10 höggum undir pari, 209 höggum samtals, átta höggum á undan Ólafíu. 

Su Oh og Sarah Jane Smith frá Ástralíu og Pornaong Phatlum frá Taílandi eru í 2.-4. sæti á 8 höggum undir pari en síðan koma Nanna Madsen frá Danmörku og Maude-Aimee Leblanc frá Kanada á 7 höggum undir pari.

Ólafía er þriðja efst af Norðurlandabúum á mótinu en Caroline Hedwall frá Svíþjóð er í 14.-15. sæti á 4 höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert