Ólafía dæmdi á sig víti

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sýndi sannan íþróttaanda og tryggð við gildi golfíþróttarinnar á lokahringnum á LPGA-mótinu í Ástralíu í nótt. 

Ólafía gerði dómara viðvart vegna atviks sem gerðist í flatarglompu. Ólafíu fannst kylfan snerta sandinn í aftursveiflunni en slíkt er brot á reglum. Eftir að hafa sagt dómaranum frá atvikinu varð niðurstaðan sú að tveimur vítishöggum var bætt við skor Ólafíu. 

Enginn varð vitni að atvikinu og Ólafía þykir þarna hafa sýnt sannan íþróttaanda en raunar er ætlast til að kylfingar séu heiðarlegir í golfíþróttinni þar sem ekki er þar um að ræða dómgæslu með svipuðum hætti og tíðkast í mörgum íþróttum. 

Netmiðilinn Vísir.is greindi frá atvikinu í morgun og þar er rætt við Ólafíu: „Bönkerinn var illa rakaður sem er afar óvenjulegt. Það var smá ójafna sem ég tók ekki eftir og og snerti ég sandinn í aftursveiflunni. Það má ekki.....En það sá þetta enginn nema ég. Ég gekk því upp að dómaranum og sagði frá þessu. Ég spilaði holuna á pari en heiðarleikinn kostaði mig tvö högg. En það var miklu betra að gera þetta svona enda er ég ekki þannig manneskja sem getur bara haldið áfram. Það hefði allt farið í rugl hjá mér,“ er haft eftir Ólafíu á Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert