Gaman í vinnunni

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur tekið þátt á tveimur mótum á …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur tekið þátt á tveimur mótum á LPGA. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir endaði í 30.-39. sæti á ISPS Handa-mótinu í Ástralíu um helgina, lék hringina fjóra á pari. Þetta er annað mótið hennar í LPGA-mótaröðinni og komst hún í gegnum niðurskurð á þeim báðum, sem verður að teljast góður árangur hjá nýliða í þessari sterkustu mótaröð heims hjá konum.

Er hún á pari við þær væntingar sem hún hafði áður en hún hóf keppni í mótaröðinni? „Þetta er góð spurning. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu, en ég er ánægð og þetta er góð byrjun á árinu,“ sagði Ólafía Þórunn í samtali við Morgunblaðið skömmu eftir að hún hafði lokið leik í fyrrinótt að íslenskum tíma.

Ólafía Þórunn sagði að lokahringurinn hefði verið nokkuð erfiður, en hún lék hann á 75 höggum, tveimur höggum yfir pari. „Það var ansi mikill vindur í dag og hann var erfiður. Ég tók stundum þremur kylfum meira en venjulega til að ná réttri lengd. En vindurinn var mjög óstöðugur og leiðinlegur og stundum lygndi alveg inn á milli og þá klúðraðist höggið algjörlega. Þetta gerðist nokkrum sinnum hjá mér, en maður varð bara að bjarga sér út úr því. Ég spilaði í raun mjög gott golf í dag þótt skorið hefði mátt vera betra,“ sagði hún.

Á sjöundu braut dæmdi hún, eins og sönnum íþróttamanni sæmir, á sig tvö högg í víti. „Annað höggið mitt var úr glompu við flötina. Hún var illa rökuð og ég fann í aftursveiflunni að kylfan rakst í pínulítinn sandklump sem var fyrir aftan boltann minn og ég tók ekki eftir honum. Það tók enginn eftir þessu, en ég lét dómarann vita og fékk því tvö högg í víti. Það er miklu betra að vera heiðarlegur í þessu og ég fæ vonandi eitthvert geggjað karma til baka,“ sagði Ólafía Þórunn. 

Nánar er rætt við Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert