Ólafía rýkur upp heimslistann

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur heldur betur rokið upp heimslistann í golfi, en hún hefur staðið sig gríðarlega vel á fyrstu tveimur mótum sínum á LPGA-mótaröðinni.

Ólafía hafnaði í 30.-39. sæti á öðru mótinu í Ástralíu um helgina, og fyrir það rauk hún upp um 103 sæti á listanum. Hún er nú í 503. sæti listans, en ef litið er eitt ár um öxl má sjá að hún hefur farið upp um 354 sæti á heimslistanum síðan þá, samkvæmt frétt golf.is.

Ólafía er jafnframt í 51. sæti peningalista LPGA á tímabilinu og er með sjötta besta árangurinn af nýliðum ársins. Hún hefur unnið sér inn sem nemur 1,3 milljónum króna eftir fyrstu tvö mótin. Til að halda keppnisrétti sínum að ári þarf hún að vera í einu af 90 efstu sætum peningalistans í lok tímabils.

Valdís Þóra Jónsdóttir er einnig á ferð upp listann, en hún er í 692. sæti og hefur farið upp um 74 sæti síðasta árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert