„Mjög stöðugt og gott golf“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/golf.is

„Þetta var bara mjög góður dagur og ekki skemmdi fyrir að vera í mjög skemmtilegu holli,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við mbl.is skömmu eftir að hún hafði lokið við að spila fyrsta hringinn á Found­ers-meist­ara­mót­inu í Phoen­ix í Banda­ríkj­un­um sem er hluti af LPGA-mótaröðinni.

Ólafía Þórunn, sem er spila á sínu þriðja móti í LPGA-mótaröðinni og því fyrsta í Bandaríkjunum, lauk keppni á 69 höggum eða þremur höggum undir pari en hún var í ráshópi með tveimur þekktum kylfingum, Michelle Wie og Cheyenne Woods. Wie lauk keppni á sjö höggum undir pari og sem stendur í forystu en Woods, sem er skólafélagi Ólafíu Þórunnar frá Wake Forest háskólaliðinu í Bandaríkjunum, náði sér ekki á strik og lék hringinn á þremur höggum yfir parinu

„Þetta var bara mjög stöðugt og gott golf hjá mér á frábærum velli og það var virkilega ánægjulegt að klára hringinn með góðum fugli. Ég var í fuglafæri á fyrstu fimm til sex holunum en í öll skiptin rétt missti ég af þeim. En svo fékk ég örn þegar ég skellti 75 metra höggi í holuna. Það var sætt að sjá boltann detta ofan í holuna,“ sagði Ólafía, sem er þegar þetta er skrifað í 19. sæti ásamt átta öðrum kylfingum en margir eiga eftir að ljúka keppni í kvöld. Hún fékk aðeins einn skolla á hringnum.

„Ég lít bara björtum augum á framhaldið og mikilvægt að halda sama hugarfari og einbeitingu. Ég lenti aldrei í vandræðum en eini skollinn kom þegar boltinn fór í sandgryfjuna og ég átti í framhaldinu erfitt högg,“ sagði Ólafía Þórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert