Tiger Woods ætlar að ná Masters

Tiger Woods vonast til að vera með á Masters.
Tiger Woods vonast til að vera með á Masters. AFP

Einn frægasti kylfingur sögunnar, Tiger Woods, reynir allt hvað hann getur til að vera klár fyrir Masters-mótið sem fram fer í næsta mánuði. Woods er að glíma við meiðsli, en hann vonast til að vera búinn að jafna sig fyrir mótið. 

Masters er fyrsta risamótið á árinu og fer það fram 6.-9. apríl næstkomandi. Woods hefur verið frá í sex vikur, eftir að hafa þurft að draga sig úr keppni eftir fyrsta hring á Omega Dubai Desert Classic-mótinu.

Hinn 41 árs gamli Woods hefur aðeins leikið samanlagt sjö hringi síðan í janúar, er hann sneri til baka úr erfiðum meiðslum sem héldu honum frá keppni í 16 mánuði. 

20 ár eru síðan Woods vann sitt fyrsta Masters-mót, þá aðeins 21 árs gamall, og vill hann ólmur halda upp á áfangann með því að taka þátt í mótinu í ár. 

„Ég vona að ég verði klár, ég er að reyna allt sem ég get. Ég elska þetta mót því það hefur gert mikið fyrir mig í gegnum tíðina.“

„Líkaminn á mér verður að vera klár. Ég veit að hausinn á mér er tilbúinn og nú þarf ég að fá líkamann með. Ég hef ekki getað undirbúið mig eins og venjulega og ég hef ekki getað æft almennilega, svo það er erfitt,“ sagði Woods. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert