Enginn Tiger á miklum tímamótum

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods hefur staðfest að hann sé ekki klár í slaginn fyrir fyrsta risamót ársins, Masters-mótið á Agusta-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Hann segir það afar svekkjandi í ljósi þeirra tímamóta sem eiga sér stað í ár en hann sigraði fyrst á mótinu fyrir 20 árum.

Woods glímir enn við bakmeiðsli og hefur meira og minna verið meiddur í 16 mánuði eftir stóra aðgerð en hann lék á móti á Bahamas-eyjum í desember síðastliðnum og komst ekki í gegnum niðurskurðinn á PGA-móti í janúar og kláraði aðeins einn hring af af fjórum á Omega Dubay Desert Classic-mótinu í sama mánuði.

Woods, sem farið hefur í þrjár bakaðgerðir á ferlinum, segir hins vegar að sú staðreynd að hann sé ekki klár í slaginn sé ekki tengd bakaðgerðinni sem hann fór í. Hann er að eigin sögn ekki kominn í nægilega gott keppnisform.

Woods hefur unnið á Masters-mótinu fjórum sinnum en 20 ár eru síðan hann gerði það fyrst og um leið sinn fyrsta risatitil en þeir eru samtals 14. Woods sigraði á Masters-mótinu árið 1997, 21 árs gamall og yngstur allra, en ekki nóg með það, heldur sigaði hann með 12 höggum sem er enn þann dag í dag met í sögu mótsins en hann endaði á -18.

„Ég mun því miður ekki keppa á Masters-mótinu í ár. Ég gerði allt hvað ég gat til þess að spila en endurhæfingin gekk ekki sem skyldi til þess að koma mér í leikform. Ég er sérstaklega leiður vegna þess að árið í ár er mér sérstakt og rifjar upp fyrir mér margar góðar minningar. Ég trúi því ekki að það séu liðin 20 ár frá því að ég vann minn fyrsta græna jakka,“ skrifaði Woods.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert