Fjórir jafnir á Masters-mótinu

Rickie Fowler er í toppbaráttunni.
Rickie Fowler er í toppbaráttunni. AFP

Fjórir kylfingar eru efstir og jafnir eftir tvo hringi á Masters-mótinu í golfi á Augusta Nati­onal-golf­vell­in­um í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamennirnir Charley Hoffm­an og Ricky Fowler, Spánverjinn Sergio Garcia og Belginn Thom­as Pieters, sem er nýliði á Masters-mótinu, eru allir fjórum höggum undir pari og það stefnir í harðan slag um sigurinn í ár en líkt og í gær gerði vindurinn kylfingunum lífið leitt.

Hoffm­an, sem var með góða forystu eftir fyrsta hringinn sem hann lék á sjö höggum undir pari, missti flugið í dag og lauk keppni á þremur höggum yfir pari. 

Fowler og Pieters léku hins vegar afar vel í dag og kláruðu báðir hringinn á fimm höggum undir parinu.

Bandaríkjamaðurinn William McGirt og Englendingurinn Justin Rose koma næstir á eftir þessum fjórum, eru á tveimur undir pari.

Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson missti taktinn á lokaholunum en hann var samtals tveimur höggum undir pari þegar hann átti þrjár holur eftir. Mickelsen lék á einu höggi yfir parinu og er samtals á pari og það er einnig Ástralin Adam Scott, sigurvegarinn á Masters-mótinu árið 2013.

N-Írinn Rory McIlroy, sem er annar á heimslistanum, lék á pari í dag og er samtals á einu höggi yfir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert