Sergio Garcia í forystu

Sergio Garcia fagnar fugli í dag.
Sergio Garcia fagnar fugli í dag. AFP

Sergio Garcia tók forystuna á Masters-mótinu á Augusta National en er nú jafn Charley Hoffman sem spilaði frábærlega í gær hefur ekki höndlað pressuna og hefur tapað fjórum höggum. 

Garcia og Hoffman eru nú jafnir á þremur höggum undir pari. Hoffman var á sjö undir eftir gærdaginn og komst átta undir par en hefur tapað fimm höggum síðan þá. Garcia var á tveimur undir pari eftir gærdaginn. Hann komst fjögur högg undir parið eftir að hafa fengið fugl á níundu holunni og var þá einn í forystu. Fékk hins vegar skolla á 10. holu rétt í þessu. 

Framganga Garcia er athyglisverð þar sem hann hefur aldrei sigrað á risamóti þrátt fyrir mikla hæfileika og flottan feril. Hans besti árangur á Masters er 8. sæti en hann hefur þó átt frábæra hringi við og við á Masters en aldrei náð frábærum 72 holum. 

McGirt sem lék á þremur undir í gær hefur lokið leik í dag og er á samtals tveimur undir pari. 

Rory McIlroy er búinn með fyrri níu holurnar í dag og er á parinu eins og hann var fyrir daginn í dag. McIlroy komst um tíma eitt högg undir parið í dag en fékk skolla á 9. holu. Margir reikna með því að hann berjist um sigurinn á sunnudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert