Sprengja hjá Spieth

Jordan Spieth á hringnum í dag.
Jordan Spieth á hringnum í dag. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth er þekktur fyrir snilldarspilamennsku á Augusta National golfvellinum. Annað árið í röð fékk hann þó slæma sprengju á Masters. 

Spieth er 23 ára og er að keppa á Masters í fjórða sinn. Hann hefur tvívegis endað í 2. sæti og sigraði árið 2015 með miklum yfirburðum. Í fyrra má segja að hann hafi „kastað“ frá sér sigrinum þegar hann sprengdi 12. holuna sem er par 3 á lokahringnum. Fékk þá 8 högg á holuna eftir að hafa slegið tvívegis í vatnið.

Spieth var á pari eftir 14 holur við erfiðar aðstæður í dag og því í fínum málum þegar hann kom á 15. holuna. Í sögulegu samhengi er hún ein sú auðveldasta á Masters enda par 5 hola og gefur færi á því að slá inn á í tveimur höggum. En þá þarf að fljúga boltanum yfir vatn en Spieth sló í vatnið í kvöld. Vippaði í framhaldinu yfir grínið af fallreitnum og fékk 9 högg á holuna. Var þá skyndilega kominn fjögur högg yfir pari en fékk fugl, par og par á síðustu þremur holunum og lauk leik á 75 höggum. 

Er það versti hringur Spieth á Masters á ferlinum en hann hafði áður skilað inn skori upp á 74 högg. Hans besti hringur á Masters er hins vegar 64 högg. 

Fleiri af bestu kylfingum heims lentu í vandræðum á Masters í dag en voru aðstæður erfiðar þar sem vindurinn blés nokkuð hressilega. Jason Day lék á 74 höggum, Rory McIlroy var um tíma á þremur yfir pari en lauk leik á parinu, 72 höggum, Adam Scott á 75, Zach Johnson á 77 og Henrik Stenson á 77 svo einhverjir séu nefndir. 

Fred Couples á hringnum í dag.
Fred Couples á hringnum í dag. AFP

Einungis ellefu kylfingar voru undir pari í dag. Í þeim hópi voru tveir kylfingar sem þykja vera á meðal þeirra allra bestu í sögunni sem aldrei hafa unnið risamót. Það eru þeir Lee Westwood sem var á 70 höggum og Sergio Garcia sem var á 71 höggi. Þá var hinn 46 ára gamli Phil Mickelson á 71 höggi eftir sveiflukenndan hring. Englendingurinn Justin Rose er líklegur til að láta að sér kveða eftir að hafa einnig leikið á 71 höggi. 

Þá má geta þess að gamall sigurvegari á Masters, Fred Couples, er á meðal tuttugu efstu á 73 höggum. Couples er með ólíkindum seigur á Augusta en hann sigraði á mótinu árið 1992. Hann fór í gegnum niðurskurðinn á mótinu fyrstu tuttugu og þrjú skiptin sem hann tók þátt. Couples er 57 ára gamall og hefur glímt við bakmeiðsli árum saman. 

Stórvinirnir og félagarnir úr Ryder-liði Evrópu, Lee Westwood og Sergio …
Stórvinirnir og félagarnir úr Ryder-liði Evrópu, Lee Westwood og Sergio Garcia, að hringnum loknum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert