Allt galopið á Masters

Ólympíumeistarinn Justin Rose.
Ólympíumeistarinn Justin Rose. AFP

Evrópubúarnir Justin Rose og Sergio Garcia verða í síðasta ráshópnum á Masters-mótinu í golfi á morgun, fyrsta risamóti ársins hjá körlunum. Útlit er fyrir gríðarlega spennu á lokahringnum því margir frábærir kylfingar eiga möguleika á sigri. 

Rose og Garcia eru á sex undir pari. Ólympíumeistarinn Rose frá Englandi átti virkilega góðan dag og lék á 67 höggum. Spánverjinn Garcia hefur aldrei sigrað á risamóti en er almennt talinn einn allra besti kylfingur sögunnar sem ekki hefur náð risatitli. Hann var á 70 höggum í dag og hefur leikið vel alla þrjá dagana. 

Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler er aðeins höggi á eftir en hann var á 71 höggi í dag. Fowler hefur síðustu árin verið einn vinsælasti kylfingur Bandaríkjanna en hefur aldrei sigrað á risamóti. 

Landar hans Jordan Spieth, Ryan Moore og Charley Hoffman eru á fjórum undir pari samanlagt og aðeins tveimur höggum á eftir efstu mönnum. Spieth er sá eini þessara sex sem sigrað hefur á Masters og gerði það 2015. 

Jordan Spieth.
Jordan Spieth. AFP

Masters-meistarinn frá 2013, Adam Scott frá Ástralíu, á möguleika en hann er á þremur undir pari eftir að hafa leikið á 69 í kvöld. 

Charl Schwartzel frá Suður-Afríku er á tveimur undir pari samtals. Schwartzel sem sigraði á Masters árið 2011 lék á 68 í dag.

Einungis tíu kylfingar eru undir pari samtals að loknum 54 holum og gefur það nokkra mynd af því hversu erfitt er að eiga við Augusta National. 

Norður-Írinn Rory McIlroy á litla möguleika á sigri en hann er á pari samanlagt. Lék hann á 71 höggi í dag. Masters er eina risamótið sem hann hefur ekki unnið. McIlroy hefur leikið vel á köflum alla þrjá dagana en hefur aldrei komist á virkilegt flug. 

Sergio Garcia er vel stemmdur.
Sergio Garcia er vel stemmdur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert