Langþráður sigur Garcia á risamóti

Sergio Garcia bar sigur úr býtum á Masters-mótinu í golfi.
Sergio Garcia bar sigur úr býtum á Masters-mótinu í golfi. AFP

Sergio Garcia bar sigur úr býtum á fyrsta risamóti ársins í golfi eftir æsispennandi bráðabana við Justin Rose á Masters-mótinu í gærkvöld. Þetta var fyrsti sigur Garcia á risamóti, en fyrir mót var hann af mörgum talinn einn besti kylfingur sögunnar sem hafði ekki fagnað sigri á risamóti. Garcia hefur í fjórgang hafnað í 2. sæti á risamótum og er sigurinn því ansi kærkominn hjá Spánverjanum. 

Kylfingarnir tveir léku hringina fjóra á samtals níu höggum undir pari og því þurfti að grípa til bráðabana. Þeir voru jafnir á sex höggum undir pari fyrir síðasta hringinn. Garcia náði mest þriggja högga forystu á lokahringnum, en Rose gafst ekki upp og tókst að jafna og síðan komast yfir Garcia. Rose var með tveggja högga forystu þegar fjórum holum var ólokið. 

Garcia tókst hins vegar að jafna með góðri spilamennsku í blálokin. Spánverjinn fékk m.a örn á 15. holu með ótrúlegu höggi. Báðir kylfingar fengu fínt tækifæri til að tryggja sér sigurinn á lokaholunni, en þeim tókst ekki að koma kúlunni ofan í, þrátt fyrir góð færi til þess. Rose átti slæmt upphafshögg á 1. holu bráðabanans og færði Garcia sér það í nyt og gat hann því loks fagnað sigri á einu af fjórum risamótum ársins. 

Charl Schwartzel hafnaði í 3. sæti, sex höggum undir pari og þar á eftir komu Matt Kuchar og Thomas Pieters á fimm höggum undir pari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert