Erfið byrjun reyndist dýrkeypt

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir keppir á sínu fimmta LPGA-móti um helgina.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir keppir á sínu fimmta LPGA-móti um helgina. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér ekki á strik á fyrsta degi Lotte/Hershey-mótsins í golfi, en það er fimmta mótið sem hún keppir í á LPGA mótaröðinni. Ólafía lék hringinn á fjórum höggum yfir pari. 

Hringurinn var ansi viðburðarríkur hjá Ólafíu sem var komin fjóra yfir parið eftir aðeins fimm holur, þar sem hún fékk m.a tvöfaldan skolla á fimmtu holu. Eftir það fékk hún tvo fugla og tvo skolla og spilaði betra golf.

Þegar Ólafía var búin með átta holur þurfti að hætta keppni í 45 mínútur vegna veðurs, en þá hafði ringt ansi mikið. Staðreyndin er skrautlegur fyrsti hringur, en Ólafía er í 131.-136. sæti af 143 kylfingum og þarf hún að spila mun betur á morgun til að komast í gegnum niðurskurðinn. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

05:15 - Ólafía klárar fyrsta hringinn á mótinu með því að fá fimm pör í röð og er hún samtals á fjórum höggum yfir pari. Hún er í 131.-136. sæti. 

04:55 - Á 16. braut kemur þriðja parið í röð. Miðað við hringinn sem Ólafía er búin að eiga er hún væntanlega nokkuð sátt við það. 

04:45 - Annað parið hjá Ólafíu í röð. Mig grunar að hana hlikkar til að klára hringinn og bíða eftir morgudeginum. 

04:30 - Par á 14. braut er staðreynd. Nú eru aðeins fjórar holur eftir af fyrsta hring. Koma svo Ólafía. 

04:11 - Annar skolli hjá Ólafíu. Henni hefur ekki tekist að komast á neitt flug í dag. Hún er á fjórum yfir pari og verður hún að spila mun betur til að komast í gegnum niðurskurðinn. 

03:53 - Ólafía fylgir fuglinum eftir með að fá par á þriðju holu sem er skemmtileg par þrjú braut. Það er mjög forvitnilegt að sjá hvað hún gerir á síðustu sex holunum. Efstu kylfingarnir eru sex undir pari, en það eru þær Mi Hyan Lee frá Suður-Kóreu og Paula Creamer frá Bandaríkjunum. 

03:39 - Glæsilegt, Ólafía svarar vonbrigðunum á tíundu braut með að fá fugl á þeirri elleftu og komast aftur á þrjá yfir par. Vonandi það sem koma skal. 

03:30 - Ekki byrjar það sérstaklega vel á seinni níu holunum. Ólafía fær skolla og er aftur komin á fjóra yfir par. Hún er á meðal öftustu kylfinga sem stendur. Leiðin liggur bara upp á við. 

03:08 - Ólafía endar fyrri níu holurnar á að fá par og er hún samtals á þrem höggum yfir pari. Ansi skrautlegur fyrsti hringur hjá henni fram að þessu. Hún er í 127.-134. sæti og við vonum að lífið gangi aðeins betur fyrir sig á seinni níu holunum. 

02:54 - Gleði! Mótið er komið af stað aftur, en það tafðist í um 45 mínútur. 

02:40 - Það eru 15-20 mínútur í að mótið fari af stað á ný, samkvæmt Twitter-síðu LPGA. 

02:32 - Skemmtilegir þessir samféalgsmiðlar. Við á mbl.is sendum LPGA skilaboð á Twitter og spurðum um gang mála og við fengum skjót svör, vel gert LPGA. Sem stendur er verið að vinna í því að koma vatni af vellinum svo keppnin geti haldið áfram, en það er ekki víst hversu langan tíma það mun taka. 

02:24 - Hætt hefur verið keppni í bili vegna veðurs en það er mikil rigning á Havaí sem stendur. Vonandi fer keppnin af stað aftur sem fyrst. 

02:00 - Annað par á áttundu holu. Það er kominn mun meiri stöðuleiki í spilið hjá Ólafíu. Tvö pör í röð og þar á undan var fugl. Vonandi heldur þessi stöðuleiki áfram og hún nælir sér í einhverja fugla í leiðinni. 

01:46 - Par á sjöundu holu er staðreynd. Þetta er búið að vera ansi áhugaverður hringur hjá Ólafíu. Hún er enn þrem höggum yfir pari og í 125.-133. sæti. Efstu kylfingarnir eru á fimm höggum undir pari. 

01:28 - Frábært svar hjá Ólafíu. Hún fær sinn fyrsta fugl í kvöld og lagar aðeins sína stöðu. Þrjú högg yfir pari vallarins eftir sex holur. 

01:20 - Nú virðist hafa verið bætt höggi við Ólafíu á fimmtu braut. Hún hefur líklegast fengið víti. Hún er því á fjórum höggum yfir pari. 

01:00 - Aftur skolli, þetta er farið að verða mjög slakur hringur hjá Ólafíu. Hún er á Þrem höggum yfir pari eftir aðeins fimm holur. Vonandi liggur leiðin upp á við. 

00:50 - Þetta var mikilvægt par. Það hefið verið ansi vont að gera þrjá skolla í röð. Ólafía er í 108.-127. sæti sem stendur af 144 keppendum. 

00:37 - Úff, annar skolli hjá Ólafíu. Hún er því strax komin tveim höggum yfir par vallarins eftir aðeins þrjár holur. Ekki góð bryjun hjá okkar konu. 

00:23 - Ólafía gerir því miður skolla á annari braut. Hún er í 87.-111. sæti sem stendur en það er lítið að marka það eftir aðeins tvær holur. 

00:04 - Þá er hún komin af stað. Fyrsta holan er par fimm hola og Ólafía leikur hana á fimm höggum Gott og öruggt par til að byrja þetta fimmta LPGA-mót. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert