Haraldur í öðru sæti

Haraldur Magnús lék vel í Danmörku.
Haraldur Magnús lék vel í Danmörku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur endaði í öðru sæti á Tinderbox Charity Challenge mótinu í golfi sem lauk á dönsku eyjunni Fjóni í dag.

 Haraldur lék á 65, 67 og 72 höggum eða samtals á níu höggum undir pari. Haraldur var efstur eftir tvo hringi en hann endaði fimm höggum á eftir Svíanum Christopher Nielsen sem stóð uppi sem sigurvegari.

Mótið er hluti af Nordic League-mótaröðinni. Fyrir mótið var Haraldur í þriðja sæti stigalista mótaraðarinnar. Efstu fimm á stigalistanum tryggja sér fullan keppnisrétt á næststerkustu mótaröð Evrópu, Áskorendamótaröðinni. Haraldur hefur leikið vel á tímabilinu en hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn í öllum þeim mótum sem hann hefur tekið þátt í og endað í einu tíu efstu sætanna í alls sex skipti. 

Ólafur Björn Loftsson hafnaði í 35. sæti en hann lék á 74, 69 og 72 höggum, var á einu yfir pari í gær og samtals á tveimur höggum yfir pari vallarins.

Axel Bóasson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson léku einnig á mótinu en komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert