Fyrsti sigur Koepka á risamóti

Brooks Koepka á hringnum í kvöld.
Brooks Koepka á hringnum í kvöld. AFP

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi í kvöld með miklum glæsibrag. Hann lauk leik á samtals 16 undir pari sem er einungis höggi verra en sjálft mótsmetið á 72 holum. 

Koepka er 27 ára gamall er um hans fyrsta sigur á risamóti að ræða en „Grand Slam“-mótin í golfinu eru fjögur talsins. Koepka hefur þó nokkrum sinnum staðið sig ágætlega á risamótunum og varð í 4. sæti á PGA-meistaramótinu í fyrra og hefur náð 10. sæti á Opna breska og 11. sæti á Masters. Koepka hefur tvívegis sigrað á PGA-mótaröðinni, einu sinni á Evrópumótaröðinni og fjórum sinnum á Áskorendamótaröðinni, þeirri sem Birgir Leifur Hafþórsson leikur á. 

Koepka fær í sinn hlut 2,1 milljón dollara í verðlaunafé. Brian Harman á eftir að ljúka leik en hann er í öðru sæti sem stendur á 13 undir pari. Náði hann pari eða betra á lokaholunni þá hafnar hann í 2. sæti en fyrir það eru 1,3 milljónir dollara í verðlaunafé. 

Japaninn Hideki Matsuyama lék á 12 undir pari samtals og Bretinn Tommy Fleetwood á 11 undir pari.

Næstir komu þrír Bandaríkjamenn á 10 undir pari: Rickie Fowler, Xander Schauffele og Bill Haas. 

Rickie Fowler náði ekki að fylgja frábærum fyrsta hring upp …
Rickie Fowler náði ekki að fylgja frábærum fyrsta hring upp á 65 högg eftir með sigri í mótinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert