Gísli efstur eftir stórbrotinn hring

Gísli Sveinbergsson
Gísli Sveinbergsson mbl.is/Styrmir Kári

Hafnfirðingurinn Gísli Sveinbergsson sýndi stórbrotna frammistöðu á fyrsta hringnum á Breska áhugamannamótinu í golfi sem hófst í dag og lék á 64 höggum sem er 8 undir pari vallarins. 

Gísli hefur eitt högg í forskot á kylfing frá Ítalíu en mörg góð skor hafa litið dagsins ljós. Ekki hafa allir lokið leik en miklar líkur eru á því að Gísli verði efstur að loknum fyrsta keppnisdegi. 

Gísli fékk átta fugla og tíu pör á hringnum og lék fyrri 9 holurnar á aðeins 30 höggum. Leikið er á Prince´s vellinum en vert er að geta þess að leikið er á tveimur völlum í mótinu í Kent. Hinn völlurinn er mjög frægur golfvöllur, Royal St. George´s, sem fjórtán sinnum hefur hýst Opna breska meistaramótið, síðast 2011 og næst árið 2020. 

Staðan í mótinu

Breska áhugamannamótið er án efa virtasta áhugamannamótið í golfinu en það hefur verið haldið allar götur síðan 1885 ef frá eru talin stríðsárin þegar Evrópa logaði í átökum. Mótið fer að þessu sinni fram á Royal Cinque Ports and Prince's völlunum í Kent.  Sigur í áhugamannamótinu gefur þátttökurétt í risamótum eins og Opna breska og Masters í Bandaríkjunum. Eftir miklu er því að slægjast fyrir sigurvegara mótsins.

Breska áhugamannamótið var lengi vel á meðal „Grand slam“-mótanna fjögurra en í dag eru það eingöngu fjögur atvinnumannamót sem falla undir þá skilgreiningu. Sá frægasti sem sigrað hefur á Breska áhugamannamótinu er sjálfur Bobby Jones en hann vann árið 1930. Þá vann hann einmitt öll risamótin fjögur og það hefur enginn annar gert á sama árinu. Aðrir nafntogaðir kylfingar sem sigrað hafa á mótinu í seinni tíð eru José María Olazábal (1984), Sergio Garcia (1984) og Matteo Manassero (2009).

Fyrirkomulag mótsins er með þeim hætti að kylfingarnir leika 36 holu höggleik og þá tekur út útsláttarkeppni þar sem spiluð er holukeppni: maður á mann. 

Haraldur Franklín Magnús úr GR komst í 8-manna úrslit í mótinu árið 2013 og í 16-manna úrslit árið 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert