Tiger Woods fær aðstoð fagfólks

Tiger Woods er í basli.
Tiger Woods er í basli. AFP

Kylfingurinn Tiger Woods var mikið í fréttum fyrir skömmu eftir að hafa verið handtekinn undir áhrifum lyfja undir stýri. Hann er nú undir handleiðslu fagfólks til þess að stjórna lyfjanotkun sinni.

Hinn 41 árs gamli Woods er að jafna sig á sinni fjórðu bakaðgerð á síðustu þremur árum. Myndbönd af Woods við handtökuna láku út þar sem hann var í annarlegu ástandi en sjálfur segir hann að lyfseðilsskyld lyf hafi orsakað vímuna.

„Ég er núna að fá hjálp fagfólks til þess að stjórna lyfjaskammtinum til þess að ráða við verkina í baki í bland við svefnvandamál. Ég vil þakka fyrir stuðninginn og skilninginn, sérstaklega hjá öðrum kylfingum,“ sagði Woods.

Hann mun þurfa að mæta fyrir dómara og svara fyrir gjörðir sínar þann 9. ágúst næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert