Ráshópur Ólafíu liggur fyrir

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari úr GR, verður í ráshópi með Bandaríkjamanni og Ástrala þegar hún brýtur blað í golfsögunni á Íslandi og tíar upp í risamóti næstkomandi fimmtudag. 

Ólafía fer á 1. teig klukkan 9:30 að staðartíma í Illinois-ríki á fimmtudaginn. Fyrsti ráshópur fer af stað klukkan 7:30 um morguninn og ráshópur Ólafíu er númer 13. Hann skipa ásamt Íslendingnum þær Wendy Doolan frá Ástralíu og Annie Park frá Bandaríkjunum. 

Doolan er mjög reyndur kylfingur en hún er 48 ára gömul. Hefur þrívegis sigrað á mótum í LPGA-mótaröðinni í gegnum tíðina og náði þrívegis inn á topp 10 á risamótunum en meira en áratugur er liðinn síðan hún náði því. Annie Park er á svipuðum slóðum og Ólafía á sínum ferli en hún var nýliði í LPGA-mótaröðinni í fyrra. Hún hefur ekki sigrað á móti á LPGA. 

Þær hefja leik á 10. teig á öðrum hringnum á föstudaginn og fá þá að sofa út en þær eiga rástíma klukkan 14:30. Að þeim hring loknum verður keppendafjöldi skorinn niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert