Þrír Bandaríkjamenn í forystu

Jordan Spieth lék á fimm höggum undir parinu í dag.
Jordan Spieth lék á fimm höggum undir parinu í dag. AFP

Bandaríkjamennirnir Jordan Spieth, Brooks Koepka og Matt Kuchar eru með forystu eftir fyrsta hringinn á opna breska meistaramótinu í golfi sem hófst á Royal Birkdale-golfvellinum í morgun.

Bandaríkjamennirnir þrír eru allir 5 höggum undir pari og hafa eins höggs forskot á Englendinginn Paul Casey og Suður-Afríkumanninn Charl Schwartzel.

Ernie Els, sem tvívegis hefur fagnað sigri á mótinu, og Japaninn Hideki Matsuyama, sem er í öðru sæti á heimlistanum, eru ásamt 14 öðrum kylfingum á þremur höggum undir parinu.

N-Írinn Rory McIlroy, sem fagnaði sigri á opna breska mótinu árið 2014, er á einu höggi yfir pari. Hann byrjaði hringinn hörmulega og var fimm höggum yfir pari eftir sex fyrstu holurnar en honum tókst að rétta sinn hlut með því að næla sér í fjóra fugla á síðustu níu holunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert