Þrjár jafnar fyrir lokadaginn í Keili

Axel Bóasson fer með þriggja högga forystu inn í morgundaginn.
Axel Bóasson fer með þriggja högga forystu inn í morgundaginn. Ófeigur Lýðsson

Heimamaðurinn Axel Bóasson fer með þriggja högga forystu inn í morgundaginn á Íslandsmótinu í golfi. Axel lék vel í dag í erfiðum aðstæðum, en hann lauk leik á fjórum höggum undir pari og er samtals á níu höggum undir pari í fyrsta sæti.

Haraldur Franklín Magnús og Fannar Ingi Steingrímsson eru jafnir í öðru sæti á sex höggum undir pari í heildina. Þar á eftir koma Vikar Jónasson og Andri Þór Björnsson á fimm höggum undir pari og því geta margir blandað sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn á lokahringnum á morgun. Þó hafa ekki allir kylfingar lokið leik, en þeir sem leika best hafa komið í hús.

Mikil spenna í kvennaflokki

Ragnhildur Kristinsdóttir (GR), Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) og Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) eru allar jafnar í fyrsta sæti kvennaflokksins. Þær leika allar á átta höggum yfir pari í heildina. Ragnhildur var með tveggja högga forystu fyrir 18. brautina. Hún neyddist til að taka víti og sló svo yfir flötina, sem endaði með skramba. Því fara þær allar jafnar inn í lokahringinn og berjast um Íslandsmeistaratitilinn á morgun. 

Hvaleyrarvöllur var fljótur að refsa í dag ef kylfingum mistókst, en aðstæður voru mjög krefjandi. Mikill vindur var fyrripart dags, en lægði þegar leið á daginn. Minni vindur á að vera á morgun samkvæmt veðurspám, en þó gæti rignt.

Kylfingar hefja leik kl. 7:30 á morgun og fara síðustu ráshópar af stað rétt fyrir 13. Skemmtilegt verður að fylgjast með baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn á morgun.

Ragnhildur Kristinsdóttir missti niður tveggja högga forystu í blálokin.
Ragnhildur Kristinsdóttir missti niður tveggja högga forystu í blálokin. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er ein þriggja sem eru jafnar fyrir …
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er ein þriggja sem eru jafnar fyrir síðasta hringinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Valdís Þóra Jónsdóttir á möguleika á Íslandsmeistaratitlinum.
Valdís Þóra Jónsdóttir á möguleika á Íslandsmeistaratitlinum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert