Ragnar gat fagnað eftir afar spennandi einvígi

Ragnar Már Ríkarðsson, sigurvegari unglingaeinvígisins 2017
Ragnar Már Ríkarðsson, sigurvegari unglingaeinvígisins 2017 Ljósmynd/Björgvin Franz Björgvinsson

Samsung-unglingaeinvígið í golfi fór fram í gær á Hlíðavelli í Mosfellsbæ, en mótið fór fyrst fram árið 2005. Mótið er með því fyrirkomulagi að efstu fimm kylfingar í karlaflokki og efstu þrír í kvennaflokki á stigalistum Íslandsbankamótaraðarinnar í sínum flokki komast í mótið auk klúbbmeistara Golfklúbbs Mosfellsbæjar, sem heldur mótið. Því áttust sex drengir og fjórar stúlkur við í undanúrslitum mótsins í gær.

Keppt er í undanúrslitum í flokki 14 ára og yngri, 15-16 ára og 17-18 ára, en hver flokkur leikur saman í einum ráshópi. Fyrirkomulagið er þannig að kylfingarnir leika af þeim teigum sem þeir keppa af á Íslandsbankamótaröðinni og sá eða sú sem leikur á flestum höggum á hverri holu dettur út. Séu kylfingar jafnir keppa þeir kylfingar sem ekki eru öruggir áfram keppa að halda áfram á næstu holu. Kylfingarnir leika þá til skiptis þraut sem hefur verið sett upp fyrir þá, sem er ýmist vipp eða pútt. Sú eða sá sem er lengst frá dettur út. Svona héldu keppendur áfram þar til þrír voru eftir í hverjum flokki. Þeir níu kylfingar komust því í úrslit, auk sigurvegara síðasta árs sem fékk boð um að leika í ár, Hennings Darra Þórðarsonar.

Glæsilegt lokahögg Ragnars

Kylfingar léku frábært golf í úrslitunum, en leiknar voru seinni níu holur Hlíðavallar. Veitt voru verðlaun fyrir efstu fimm sætin, en Henning Darri (GK) varð fimmti, Sverrir Haraldsson (GM) fjórði og Böðvar Bragi Pálsson (GR) þriðji. Dagbjartur Sigurbrandsson (GR) og heimamaðurinn Ragnar Már Ríkarðsson stóðu eftir fyrir lokaholuna sem þeir léku á pari svo grípa þurfti til aukakeppninnar sem áður er getið. Drengirnir fengu það verkefni að slá um 90 metra langt högg inn á 18. flötina. Ragnar Már sló fyrstur og var það glæsilegt högg sem endaði um tvo metra frá holu. Næst sló Dagbjartur og tókst ekki að slá nær en Ragnar og því stóð heimamaðurinn uppi sem sigurvegari Unglingaeinvígisins 2017.

Nánar er fjallað um keppnina í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert