Axel átti erfitt uppdráttar

Axel Bóasson
Axel Bóasson Ljósmynd/GSÍ

Axel Bóasson, Íslandsmeistari úr Keili, átti erfitt uppdráttar á fyrsta keppnisdegi Made in Denmark-mótsins á Evrópumótaröðinni í gær. Axel er á meðal neðstu manna eftir að hafa leikið á 77 höggum, sem er sex höggum yfir pari vallarins á Himmerland-golfsvæðinu.

Byrjunin á hringnum var ekki eins og best verður á kosið hjá Axel. Hann fékk skolla strax á 1. holu og fjóra slíka á fyrstu sex holunum. Hann fékk alls þrjá fugla á hringnum, sjö skolla, einn skramba og sjö pör.

Axel átti fínan kafla frá 7.-15. holu og lék þann hluta vallarins á tveimur undir pari. Var hann þá á tveimur yfir pari samtals en gaf aftur eftir á síðustu þremur holunum. Ástralinn Wade Ormsby og Englendingarnir Steve Webster og Matt Wallace léku best allra í gær, en þeir voru á 64 höggum. Af þekktum nöfnum í mótinu má geta þess að rokkstjarna golfsins, John Daly, lék á 67 höggum og Þjóðverjinn Martin Kaymer á 69 höggum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert