Ólafía keppir í Suður-Kóreu í nótt

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mætir til leiks á 22. móti sínu í LPGA-mótaröðinni í nótt. LPGA KEB Hana Bank-mótið fer fram í Suður-Kóreu og fer Ólafía af stað um 50 mínútum eftir miðnætti. 

Flestir af bestu kylfingum heims eru á meðal keppenda á LPGA KEB Hana Bank-meistaramótinu. Tíu efstu á heimslistanum eru mættar til leiks og alls 18 af 20 efstu á heimslistanum eru á meðal keppenda.

Mótið fór fyrst fram árið 2002 og frá árinu 2014 hafa verið leiknar 72 holur á þessu móti. Frá árinu 2008 hefur mótið farið fram á núverandi keppnisvelli, Ocean Course, SKY72 Golf & Resort.

Ólafía er í 70. sæti á peningalista LPGA-mótaraðarinnar og er nokkuð örugg um að halda keppnisrétti sínum á sterkustu mótaröð í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert