Leiðin grýtt á lokamótið

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mun leika á tveimur af síðustu þremur mótum LPGA-mótaraðarinnar í golfi en margt þarf að ganga upp til að hún hljóti keppnisrétt á lokamótinu í Flórída sem fram fer 16.-19. nóvember. Ólafía lék á sínu 24. móti á mótaröðinni í ár þegar hún varð í 59. sæti við erfiðar aðstæður á Sime Darby-mótinu í Malasíu um helgina.

Ólafía lék í gríðarmiklum hita í Malasíu og það setti sitt mark á spilamennskuna. Eftir að hafa leikið frábærlega í 27 stiga hita á 2. keppnishring náði hún sér ekki á strik í enn meiri hita seinni tvo keppnisdagana, sem hún lék á +1 höggi og +4 höggum. Ólafía lék hringina fjóra samtals á +7 höggum og endaði sem fyrr segir í 59. sæti sem færði henni jafnvirði tæplega hálfrar milljónar króna í verðlaunafé. Cristie Kerr vann mótið og hlaut jafnvirði um 30 milljóna króna í sinn hlut, en hún lék á -15 höggum.

Eftir stórkostlegan árangur á mótinu í Indianapolis í september, þar sem Ólafía varð í 4. sæti, og keppni á Evian-risamótinu í Frakklandi, hefur Ólafía ekki náð sér eins vel á strik sunnan miðbaugs á síðustu mótum. Hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn á móti í Nýja-Sjálandi, og árangurinn í Malasíu er sá besti hjá henni á þremur mótum í Asíu sem öll eru mót án niðurskurðar.

Til að komast á lokamótið í Flórída þarf Ólafía að enda meðal 72 efstu á sérstökum stigalista, sem er ekki sá sami og peningalisti LPGA-mótaraðarinnar. Á mótum án niðurskurðar ná til að mynda aðeins kylfingar í efstu 40 sætunum í stig og því hefur Ólafía ekki safnað stigum undanfarið, þó að hún hafi bætt við sig peningum. Ólafía er í 82. sæti nú, tíu sætum frá því að ná á lokamótið, með 391 stig, tæpum 100 stigum frá 72. sæti. Hún þarf því mjög góðan árangur á mótunum sem eftir eru, í Japan 2.-5. nóvember og Kína 8.-11. nóvember, en sem dæmi má nefna að 6. sæti á öðru mótanna myndi skila henni 100 stigum. Fimmtíu stig fást fyrir að enda í 21. sæti, en 500 stig fyrir sigur, til dæmis, en nákvæma útfærslu má sjá á heimasíðu LPGA.

Síðasta mót Ólafíu í ár verður Drottningamótið í Japan í byrjun desember, þar sem hún verður í Evrópuliðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert