Erfitt hjá Birgi Leifi

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Ljósmynd/GSÍ

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, lék á 74 höggum eða þremur höggum yfir pari á þriðja hringnum á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi sem fram fer á Spáni.

Birgir Leifur fékk einn fugl, fjóra skolla og spilaði 13 holur á parinu. Hann er sem stendur í 131. sæti ásamt fleiri kylfingum en margir eiga eftir að ljúka leik í dag. Birgir Leifur er samtals á 5 höggum yfir pari eftir þrjá hringi.

Staðan á mótinu

Alls komast 25 efstu inn á Evrópumótaröðina en alls eru leiknir 6 keppnishringir á jafnmörgum dögum. Möguleikar Birgis á að enda í einu af 25 efstu sætunum eru því ansi litlir.

Þetta er í 11. sinn sem sjöfaldi Íslandsmeistarinn keppir á lokaúrtökumótinu. Birgir Leifur er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt í Evrópumótaröðinni. Hann gerði það árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert