Aldrei ofar á heimslista

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur verið að gera það gott á …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur verið að gera það gott á árinu. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í 179. sæti nýs heimslista í golfi og hefur aldrei verið ofar. Hún fór upp um fimm sæti frá síðasta lista með því að ná 35. sæti á LPGA-móti í Kína um helgina. Möguleikar hennar á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020 virðast afskaplega góðir, en mikið vatn á eftir að renna til sjávar.

Ólafía er í 23. sæti lista yfir bestu kylfinga Evrópu. Alls eru sjö Norðurlandabúar fyrir ofan Ólafíu á heimslistanum. Athygli vekur að af þeim 178 kylfingum sem eru fyrir ofan Ólafíu á heimslistanum koma hvorki fleiri né færri en 66 frá Suður-Kóreu. Bandaríkin eiga 33 í þessum hópi og Japan 32. Þessar þjóðir skera sig úr í golfi kvenna en efst á heimslista er þó Shanshan Feng frá Kína.

Fyrir ári var Ólafía í 614. sæti á heimslistanum, svo hún hefur flogið upp um 435 sæti á aðeins einu ári með góðum árangri á sínu fyrsta keppnistímabili á LPGA-mótaröðinni.

Lofar góðu varðandi Ólympíuleika

Í þessu sambandi má velta vöngum yfir möguleikum Ólafíu á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó, þó að enn sé langt í þá, því að heimslistinn ræður því hvaða 60 kylfingar taka þar þátt í golfkeppni kvenna. Ef reglur um það hverjar komast á Ólympíuleikana verða þær sömu og fyrir ÓL í Ríó er útlitið afar gott fyrir Ólafíu. Hafa ber þó í huga að fyrir ÓL í Ríó gilti aðeins árangur síðustu tveggja ára fyrir leikana. Með sama hætti myndi því árangur vegna ÓL í Tókýó ekki fara að telja fyrr en næsta sumar.

Kvóti er á fjölda kylfinga frá hverri þjóð sem mega keppa á Ólympíuleikum. Suður-Kórea, Japan og Bandaríkin geta þannig í mesta lagi sent fjóra kylfinga hvert. Reglan er sú að þjóð megi að hámarki senda fjóra kylfinga ef þeir eru í hópi 15 efstu á heimslista en annars að hámarki tvo. Þess vegna var til dæmis hin indverska Aditi Ashok með í Ríó þrátt fyrir að vera þá í 444. sæti heimlistans.

Jafnvel þó að Suður-Kórea, Japan og Bandaríkin ættu fjóra kylfinga hver þjóð í Tókýó yrðu enn 46 sæti laus á leikunum. Á heimslistanum nú eiga 18 þjóðir til viðbótar kylfing eða kylfinga í sæti fyrir ofan Ólafíu, en jafnvel þó að hver þessara þjóða fengi sæti fyrir tvo kylfinga yrðu enn 10 sæti laus og Ólafía fengi eitt þeirra, miðað við núverandi stöðu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert